Skilar samkeppnin okkur samkeppnishæfu matarverði? Upptaka og myndir

28.02.2025

Opinn fundur FA, „Skilar samkeppnin okkur samkeppnishæfu matarverði?“ var vel sóttur og voru honum sömuleiðis gerð góð skil í fjölmiðlum. Þar fór á köflum fram hressileg umræða um samkeppnishætti á matvörumarkaðnum og sumir ræðumenn settu fram harða gagnrýni á ríkjandi ástand. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum í spilaranum hér að neðan.

Friðrik Ingi Friðriksson, nýkjörinn formaður FA, setti fundinn og sagði m.a. að í allri framleiðslu yrðu atvinnurekendur að hafa val um birgja til að geta náð hagstæðu verði. „Það er mjög hamlandi að geta ekki valið um birgja og leiðir undantekningarlaust til hærra innkaupsverðs,“ sagði Friðrik. „Það sama á við um hinn endann, söluhlutann. Í mínum rekstri hef ég prófað að treysta á einn söluaðila og til að gera þá sögu stutta, þá leiddi það alltaf til taprekstrar eftir tiltölulega skamman tíma. Við verðum að hafa frjálsræði og samkeppni til að geta rekið arðsöm fyrirtæki.“

Bændum verði tryggðir hagræðingarmöguleikar
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra flutti inngangserindi á fundinum. Hún sagði að stundum gætu undanþágur frá frjálsri samkeppni verið rökréttar og réttlætanlegar, t.d. verndartollar fyrir landbúnað. „En það er þó mikilvægt að árétta að slíkar verndarráðstafanir þurfa að vera skýrt afmarkaðar þannig að þær vinni í raun og veru að því markmiði að styrkja samkeppnisstöðu greinarinnar, fremur en að festa í sessi einokun, fákeppni eða viðlíka sérhagsmunavernd. Það er verkefnið,“ sagði ráðherrann.

Hún ræddi m.a. um breytingu á búvörulögum síðastliðið vor, sem veitti kjötafurðastöðvum víðtækar undanþágur frá samkeppnislögum. Hún sagði að þar hefði Alþingi farið út af sporinu; afurðastöðvunum hefðu verið veittar miklu rýmri undanþágur en upphaflega var lagt upp með og þekktist í nágrannalöndunum. Hún hefði því lagt fram frumvarp um að draga til baka breytingarnar á búvörulögunum, en um leið vildi hún leggja fram nýtt frumvarp strax í haust sem tryggði að hinu upphaflega markmiði yrði náð, að tryggja frumframleiðendum, bændum, sambærileg skilyrði til hagræðingar og þekktust í nágrannalöndunum. „Þar verður tekið mið af þeim ábendingum sem bárust um upphaflega frumvarpið, en við munum jafnframt gæta þess að undantekningarheimildirnar leiði ekki til einokunarmarkaðar og ábatinn af þeim heimildum sem verða veittar skili sér til þeirra sem til var ætlast, bænda og neytenda,“ sagði Hanna Katrín.

Hægt verði að bregðast hraðar við skorti
Hún nefndi fleiri viðfangsefni síns ráðuneytis varðandi matvörumarkaðinn, t.d. að stjórnvöld gætu brugðist fyrr við með lækkun á tollum þegar skortur væri á vöru innanlands. Fyrir nokkrum árum voru lagaákvæði um svokallaða skortkvóta felld úr búvörulögum með vísan til ákvæða stjórnarskrárinnar um álagningu skatta og ráðherra hefur ekki lengur svigrúm til að lækka tolla án atbeina Alþingis. „Breytingar á fyrirkomulagi að þessu leyti þarf að ígrunda vandlega og gæta þess að þær rúmist innan marka stjórnarskrár. Það er ljóst að í því skyni þarf oft virkara samtal og árangursríkara en kannski hefur oft verið reyndin,“ sagði hún.

Innlendu landbúnaðarvörurnar skera sig úr
Snorri Gunnarsson, sérfræðingur hjá Hagstofunni, fór yfir samanburð á verðlagi á mat á Íslandi og í nágrannalöndunum. Matvöruverð hér á landi er næsthæst í Evrópu, er aðeins hærra í Sviss. Það á þó ekki við um allar vörur. Í ýmsum vöruflokkum hefur verðlag á undanförnum árum nálgast það sem gerist í öðrum Evrópuríkjum. Undantekningarnar eru hins vegar þær búvörur sem framleiddar eru innanlands, þ.e. kjötvörur og mjólkurvörur, ostar og egg.

Vantar meiri hraða í breytingar á tollum og gjöldum
Björgvin Víkingsson, framkvæmdastjóri Bónus, nefndi í sínu erindi að meiri aðlögun og hraða vantaði í breytingum á tollum og gjöldum þegar skortur væri á innlendri vöru og nefndi t.d. eggjaskortinn undanfarna mánuði. Hann gerði einnig verndartolla á frönskum kartöflum að umtalsefni, en enginn innlend framleiðsla er á þeirri vöru. „Má þá ekki fara að aðlaga það hraðar þannig að það gangi upp fyrir okkur? Þannig erum við orðin samkeppnishæfari,“ sagði Björgvin.

Föst skot frá Prís
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís, fjallaði um innkomu síns fyrirtækis á matvörumarkaðinn. Ræðu hennar hafa verið gerð góð skil í fjölmiðlum, m.a. á mbl.is og visir.is. Gréta skaut föstum skotum á keppinautana á matvörumarkaðnum. Hún sagði m.a. að markaðsráðandi aðilar ættu alla virðiskeðjuna og gætu því stýrt því hvar framlegðin lendir. „Þeir eru að flytja inn sjálfir, þeir eiga vöruhúsin sín, þeir eiga framleiðslufyrirtækin sem framleiða vörurnar. Hvar læturðu framlegðarstigið þitt enda?“ spurði hún.

Gréta sagði einnig að viðbrögð markaðarins við innkomu Prís hefðu einkennst af hótunum og blekkingum „Það eru aðilar sem hafa hætt að selja okkur vörur af því að þeim hefur verið hótað minna hilluplássi í samkeppnisbúðunum. Aðrir sem hafa verið að framleiða fyrir okkur hafa hætt að framleiða fyrir okkur því það var ekki nægur tími í tækjunum til þess að framleiða fyrir tvo aðila,“ sagði Gréta.

Hún sagði að umbúðum á vörum fyrir Prís hefði verið breytt til að koma í veg fyrir að hægt sé að bera saman sömu vörur og eru seldar í hinum búðunum. Neytendur sypu seyðið af því„Þannig við höfum fengið aðrar umbúðir en samkeppnin sem er ekkert nema svik við viðskiptavininn,“ sagði hún.

Varð að láta reyna á breytingarnar á búvörulögunum
Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness, sýndi samanburð á verði vara hér á landi og í nágrannalöndum, sem sýnir að vörur sem Innnes flytur inn eru oft ódýrari eða lítið dýrari út úr búð. Stóra undantekningin er hins vegar búvörunar. Hann nefndi dæmi um niðurfellingu tolla sem skilaði sér beint í verðlag til neytenda, t.d. þegar tollar af kartöflusnakki voru felldir niður árið 2017.

Hann velti því líka upp hvað væri landbúnaður og benti á að t.d. framleiðsla kjúklingakjöts ætti meira skylt við iðnaðarframleiðslu. Fóðrið væri allt innflutt og tvö kg af fóðri þyrfti til að framleiða kíló af kjúklingakjöti, þannig að það væri ekki endilega umhverfisvænna að framleiða kjötið hér á landi.

Loks gerði Magnús Óli breytingarnar á búvörulögum sl. haust að umtalsefni, en Innnes fór í mál við Samkeppniseftirlitið, þar sem reyndi á gildi lagabreytinganna. Héraðsdómur dæmdi lögin andstæð stjórnarskránni. Magnús sagði að stjórnendur afurðastöðvanna mættu samkvæmt lögunum til dæmis hafa með sér samráð um verð skipta með sér markaðnum. „Ef ég myndi aðhafast eitthvað af þessu gæti ég fengið sex ára fangelsisdóm,“ sagði Magnús. „Það er ekki hægt að hugsa sér að við séum komin á 21. öldina og íslenskt samfélag sé með þeim hætti að það sé Jón og Séra Jón. Eftir 38 ára ævistarf mitt hugsaði ég: Nei. Ég veit að það verður erfið ákvörðun að fara í mál en það er þó betra að gera það en að reyna ekki.“

Samkeppnisundanþágur verði afnumdar
Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins var síðastur á mælendaskránni og fór yfir ýmis atriði sem hann taldi nauðsynleg til að efla samkeppni á matvörumarkaði. Hann nefndi að afnema þyrfti undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum, sem settar voru á síðastliðið vor, og sömuleiðis undanþágu mjólkuriðnaðarins frá 2004. Hann sagði að það væri mikill misskilningur að þessar undanþágur væru sama eðlis og í nágrannalöndum; þar hefði samrunaeftirlit til dæmis hvergi verið tekið úr sambandi. Undanþágur í Evrópuríkjum miðuðu að því að styrkja stöðu bænda, m.a. gagnvart afurðastöðvum sem þeir væru ekki eigendur að. Hér á landi væri þessu þveröfugt farið, afurðastöðvarnar hefðu fengið undanþágurnar en ekki bændurnir.

Páll Gunnar sagði að útfæra þyrfti tollvernd íslensks landbúnaðar þannig að virk samkeppni fengi þrifist. Í flestum löndum væri tollvernd stillt þannig af að ef lítil samkeppni væri innanlands væri dregið úr henni, en ef mikil samkeppni væri innanlands væri kannski tækifæri til að hafa tollverndina hærri. Páll Gunnar rifjaði upp þegar tollvernd á grænmeti var lækkuð að frumkvæði Guðna Ágústssonar, en grænmetisframleiðsla lifði engu að síður góðu lífi. Forstjórinn sagði að huga þyrfti að fyrirkomulagi við útboð tollkvóta og þátttöku kjötafurðastöðva í útboðunum. Hann sagði að Samkeppniseftirlitið væri þessa dagana að skoða þau mál og kalla eftir upplýsingum, en kjötafurðastöðvarnar væru orðnar áberandi innflytjendur kjötvara og þannig í samkeppni við innlenda bændur.

Páll sagði að leggja þyrfti samkeppnismat á tollverndina. „Ef það er engin innlend framleiðsla, til hvers að leggja á tolla?“ spurði hann.

Að fundi loknum var móttaka í boði FA. Myndirnar frá fundinum og móttökunni tók Sigurjón Ragnar.

Nýjar fréttir

Innskráning