Skömmtunarkerfi í innflutningi skaðar samkeppni

21.10.2015

IMG_4609Skömmtunarkerfi í innflutningi með úthlutun svokallaðra tollkvóta, heimilda til að flytja inn takmarkað magn af búvörum á lægri tollum en ella, leiðir af sér margvíslegar samkeppnishindranir og óhagræði, jafnt fyrir innflutningsfyrirtæki sem neytendur. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Félags atvinnurekenda um matartolla.

Í skýrslunni er bent á það sem oft hefur komið fram áður; að útboð á tollkvótunum veldur því að fyrirtæki verða að greiða hátt verð til að tryggja sér þá. Útboðsgjaldið fer út í verðlagið og veldur því í sumum tilvikum að neytendur græða lítið sem ekkert á tollfrelsinu. Kerfið vinnur þannig gegn upphaflegum markmiðum tollfrelsisins. Alþingi hefur hunsað tilmæli Samkeppniseftirlitsins um að hætta uppboðum á tollkvótum og þvert á móti fest þá leið í sessi.

Meðal áhrifa tollkvótakerfisins á samkeppni og rekstur fyrirtækja, sem rakin eru í skýrslunni, eru þessi:

  • Stærð tollkvótanna hefur ekki tekið mið af hraðvaxandi innanlandsneyslu á matvörum. Að hluta miðast þeir við neysluna eins og hún var fyrir nærri 30 árum. Sívaxandi eftirspurn eftir kvótanum verður til þess að útboðsgjaldið hækkar í sífellu og étur upp þann hag sem neytendur áttu að hafa af innflutningi á lægri eða engum tolli. Um leið dregur úr þeirri samkeppni sem innflutningurinn átti að veita innlendri framleiðslu.
  • Útboðsgjaldið felur í sér aðgangshindranir fyrir smærri innflutningsfyrirtæki sem vilja hasla sér völl á markaði.
  • Skakkaföll á borð við verkfall starfsmanna Matvælastofnunar, sem hindraði matvælainnflutning um margra vikna skeið, geta leitt til þess að fyrirtæki geta ekki fullnýtt innflutningskvótann. Ráðuneytið sýnir stífni og neitar að framlengja gildistíma kvótanna. Innflutningsfyrirtæki og neytendur tapa.
  • Fyrirtæki sem þurfa á tollkvóta að halda til að flytja inn erlend hráefni í framleiðslu sína geta ekki treyst því að fá úthlutun nema bjóða hátt í kvótann. Þetta skapar óvissu í rekstri og stuðlar að hærra verði til neytenda.
  • Útgáfa opins tollkvóta vegna vöruskorts er ófyrirsjáanleg og matskennd. Fyrirtæki sem hafa greitt háar fjárhæðir í útboði á tollkvóta hafa mátt horfa upp á að fáum vikum síðar er opnaður innflutningskvóti vegna skorts á viðkomandi vöru. Fyrirtæki sem þjónusta veitingahúsamarkað með innflutta vöru á borð við hágæða nautakjöt eiga af sömu ástæðum erfitt með að tryggja afhendingaröryggi.
  • Útgáfa opins tollkvóta vegna skorts á innlendri vöru hefur tekið atvinnuvegaráðuneytið hátt í ár með tilheyrandi óþægindum og kostnaði fyrir viðkomandi fyrirtæki.

Nánar er fjallað um öll þessi atriði í skýrslunni Matartollar: Verndarstefna eða samkeppni og valfrelsi neytenda?

Skýrsla FA um matartolla

Nýjar fréttir

Innskráning