Skortur, skömmtun og verðhækkanir á innlendum blómum

16.02.2021

Skortur hefur verið á innlendum blómum að undanförnu. Blómabúðir hafa aðeins fengið blóm upp í brot af pöntunum sínum frá innlendum framleiðendum fyrir stóru blómadagana nú í febrúar, Valentínusardaginn og konudaginn. Við þær aðstæður eiga blómaverslanir ekki annan kost en að flytja inn blóm, en tollar á blómum eru áfram gífurlega háir og ekkert er að frétta af endurskoðun fjármála- og atvinnuvegaráðuneyta á blómatollum.

Félagi atvinnurekenda er kunnugt um að seljendur innlendra blóma skammti blómabúðum blóm þessa dagana. Félagið þekkir þannig dæmi þess að blómaverslun hafi eingöngu fengið 20 íslenskar rósir upp í miklu stærri pöntun. Þá hefur félagið séð samskipti þar sem heildsalar innlendra blóma segjast ekki geta lofað að afhenda neitt upp í viðkomandi pöntun.

Tollar tvöfalda innflutningsverð
Þetta stangast á við fullyrðingar stærsta blómaræktanda landsins í Fréttablaðinu fyrir nokkrum misserum, um að innlend framleiðsla annaði eftirspurn eftir afskornum blómum og innflutningur væri óþarfur. Við þessar aðstæður er innflutningur blóma nauðsynlegur til að anna eftirspurn. Innflutt afskorin blóm bera hins vegar ofurtolla; 30% verðtoll og auk þess 95 króna stykkjatoll á hvert einasta blóm. Þannig ber rós, sem keypt er á eina evru eða 156 krónur, samtals 141,8 krónur í toll og innflutningsverð hennar hartnær tvöfaldast.

Í ársbyrjun 2020 tók gildi lagabreyting, sem felldi úr gildi heimild til að gefa út svokallaðan skortkvóta, þ.e. innflutningsheimildir á lægri tollum, ef innlenda búvöru vantar á markað. Enginn möguleiki er því lengur á að bregðast við skorti á íslenskum blómum með því að lækka tolla á innflutningi

Í skjóli hárra tolla geta innlendir blómaræktendur haldið uppi verðinu á sínum vörum. Í byrjun febrúar tilkynnti helsta heildsala innlendra blóma 7% hækkun á blómum í búntum og 4% á stykkjavöru.

Engin svör um endurskoðun á tollum
Fjármálaráðuneytið og atvinnuvegaráðuneytið hófu í nóvember 2019 vinnu við endurskoðun á blómatollum eftir að Félag atvinnurekenda, með stuðningi 25 blómaverslana, hafði sent ráðuneytunum erindi og sýnt fram á hversu ósanngjarnt, samkeppnishamlandi og neytendafjandsamlegt tollaumhverfi blómaverslunar á Íslandi er. Ekkert hefur hins vegar frést af þeirri vinnu frá því í júní síðastliðnum, en þá fékk FA þau svör frá fjármálaráðuneytinu að niðurstöðu væri að vænta fyrir lok þess mánaðar. FA sendi ráðuneytunum ítrekun á erindinu fyrr í mánuðinum, en hefur ekki fengið nein svör.

Þess vegna er konudagsvöndurinn svona dýr
„Háir tollar og takmörkuð samkeppni við innlenda blómaræktun eru meginorsök þess hvað konudagsvöndurinn er dýr,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Við skorum enn og aftur á stjórnvöld að taka þetta löngu úrelta kerfi til endurskoðunar. Það er hægt að halda tiltekinni vernd fyrir innlenda framleiðendur en gera engu að síður breytingar sem yrðu blómaversluninni og neytendum mjög til hagsbóta.“

Umfjöllun Fréttablaðsins

Umfjöllun Vísis og Bylgjunnar

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning