Skortur á svína- og nautakjöti: Frystiskyldan hægir á aukningu framboðs

30.06.2017

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út svokallaða opna tollkvóta vegna skorts á bæði svína- og nautakjöti frá innlendum framleiðendum. Heimilt er að flytja inn annars vegar svínasíður og hins vegar nautahakkefni á lægri tolli en ella í ótakmörkuðu magni, en aðeins í skamman tíma, til septemberloka. Skortkvótarnir eru á lægri tollum en ella, en innlend framleiðsla nýtur þó áfram umtalsverðrar verndar. Skortvótarnir eru til þess hugsaðir að koma í veg fyrir vöruskort og verðhækkanir vegna ónógs framboðs frá innlendum framleiðendum og verja þannig hagsmuni neytenda.

Félag atvinnurekenda bendir á að ákvæði íslenskra laga, um að innflutt kjöt verði að hafa verið 30 daga í frysti áður en leyfilegt er að setja það á markað, vinna gegn þessu markmiði opnu tollkvótanna. Erfitt hefur reynst fyrir verslunina að nálgast upplýsingar hjá innlendum framleiðendum um yfirvofandi skort á kjöti og verður oft ekki uppvíst um hann fyrr en framleiðendur geta ekki afgreitt fyrirliggjandi pantanir. Þá þarf að leita til atvinnuvegaráðuneytisins um útgáfu skortkvóta, en það ferli tekur að lágmarki viku. Þá er hægt að panta vörurnar, en vegna frystiskyldunnar líða að lágmarki 40 dagar þar til aftur tekst að auka framboðið á markaðnum frá því að uppvíst verður um skort. „Þetta leiðir að sjálfsögðu til þess að aukningu á framboðinu seinkar og þar með líka lækkun á verði. Frystiskyldan gengur því gegn hagsmunum neytenda,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA.

Hann rifjar upp að bæði EFTA-dómstóllinn og Héraðsdómur Reykjavíkur hafa dæmt frystiskylduna ólögmæta og andstæða skyldum Íslands samkvæmt EES-samningnum. „Íslenska ríkið hefur vísvitandi brotið EES-samninginn með því að viðhalda frystiskyldunni gagnvart kjöti sem flutt er inn frá öðrum EES-ríkjum. Ríkið neitar enn að fara að niðurstöðu dómstóla. Hæstiréttur mun væntanlega taka fyrir mál Ferskra kjötvara gegn ríkinu vegna innflutnings á fersku kjöti í lok þessa árs eða byrjun þess næsta. Allar líkur eru á því að dómstóllinn hafni þessum ólögmætu viðskiptahindrunum,“ segir Ólafur.

Opinn kvóti fyrir svínasíður gildir frá 1. júlí til 30. september. Svínasíður með beini bera 162 kr. magntoll á kíló en almennur tollur á innflutningi frá ríkjum Evrópusambandsins er 18% verðtollur og 217 kr. magntollur á kíló. Beinlausar síður bera 205 kr. magntoll á kíló en fullur tollur á þeirri vöru frá ESB er 18% verðtollur auk 274 kr. magntolls.

Nautahakkefni má flytja inn samkvæmt opnum kvóta frá 29. júní til 30. september. Hakkefnið  ber 270 króna magntoll á kíló en fullur tollur á hakkefni sem flutt er inn frá ríkjum Evrópusambandsins er 18% verðtollur og 359 kr. magntollur á kíló að auki.

Nýjar fréttir

Innskráning