Skynsamleg lending í kjaramálum stærsta hagsmunamálið

27.12.2018


Viðskiptamogginn leggur spurningu fyrir forsvarsmenn hagsmunasamtaka í atvinnulífinu í blaðinu í dag, 27. desember: „Hvaða breytingar myndirðu vilja sjá á nýju ári til þess að bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja sem tilheyra þínum samtökum?“ Svar Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, er eftirfarandi:

Stærsta hagsmunamál félagsmanna FA og raunar atvinnulífsins og alls almennings í landinu er skynsamleg lending í kjaraviðræðum. Hún felur í sér að samið verði um launahækkanir sem innistæða er fyrir hjá fyrirtækjunum og aðrar lífskjarabætur, til dæmis umbætur í húsnæðismálum, sem nýtast hinum lægst launuðu. Við eigum fyrir löngu að hafa lært okkar lexíu af tuga prósenta nafnlaunahækkunum, sem hafa þekkta fylgifiska á borð við verðbólguskot, gengisfall og hækkun höfuðstóls húsnæðislána. Það er hægt að ná árangri í að varðveita og auka kaupmátt án þess að taka slíkar kollsteypur, sem bitna harðast á þeim sem höllustum fæti standa.

Brýnt hagsmunamál félagsmanna í FA er greiður rekstur EES-samningsins. Fyrirtækin hafa verulegar áhyggjur af því þegar jafnvel flokkar í ríkisstjórn láta í það skína að þeir hyggist ekki fara að niðurstöðum dómstóla um brot íslenzka ríkisins á samningnum eða ekki innleiða þegar samþykktar breytingar á samningnum sem felast í þriðja orkupakkanum. EES-samningurinn er grunnstoð undir utanríkisviðskiptum Íslands og þar með hagsæld þjóðarinnar. Stjórnmálamenn ættu ekki að leika sér að því að höggva í hana án þess að skoða afleiðingarnar til enda.

Barátta FA fyrir því að sveitarfélög lækki fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði til að bregðast við gífurlegum hækkunum fasteignamats hefur borið nokkurn árangur á árinu sem er að líða, en betur má ef duga skal. FA hefur lýst sig reiðubúið að koma að vinnu með ríkinu og sveitarfélögum, sem hefði að markmiði að koma skynsemi og sanngirni í þessa gjaldtöku.

Þá telur FA afar brýnt að endurskoða starfsemi opinberra hlutafélaga á samkeppnismörkuðum. Dæmið af Íslandspósti, sem hefur tapað stórfé á misheppnuðum ævintýrum í samkeppnisrekstri og kemur nú og biður skattgreiðendur að fjármagna tapið, ætti að vera víti til varnaðar. Því miður bendir fátt enn sem komið er til að stjórnmálamenn vilji læra af reynslunni.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning