Skýrsla sýnir tap neytenda af tollvernd

23.01.2015

d86946732bc39f4cRíkisstjórnin fjallaði í morgun um skýrslu starfshóps um tollamál á sviði landbúnaðar, sem unnin var fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Skýrslan, sem var tilbúin fyrir jól, hefur nú verið birt á vef ráðuneytisins.

Félag atvinnurekenda vill vekja sérstaka athygli á eftirfarandi atriðum í skýrslunni.

Tollar og gjald fyrir tollkvóta eru hátt hlutfall verðs innfluttrar búvöru. Árið 2013 nam tollverndin um 50% af verði alifuglakjöts, 40% verðs unninna kjötvara, 32% af verði svínakjöts og 26% af verði nautakjöts. (Tafla 8, bls. 28). Neytendur tapa á þessu háa hlutfalli tollverndar, enda geta innlendir framleiðendur selt vöru sína á hærra verði í skjóli hárra innflutningstolla. Ætla má að „íslenskir bændur fái greitt að meðaltali 35% hærra afurðaverð frá neytendum heldur en ef engar hindranir væru á innflutningi“ (bls. 30).

Hefðu svokallaðir WTO-tollkvótar fylgt þróun innanlandsneyzlu á búvörum væru þeir í ýmsum tilvikum margfalt rýmri en raunin er. Þá hefði íslenzkur landbúnaður meiri erlenda samkeppni. Heimilt er að flytja inn til landsins takmarkað magn búvöru á lægri tollum, samkvæmt samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO). Þessir tollkvótar miðast við 5% af innanlandsneyzlu á árunum 1986-1988. Á þeim tæpu þremur áratugum, sem liðnir eru, hefur neyzlumynztur þjóðarinnar gerbreytzt. Hefðu tollkvótarnir fylgt neyzluþróuninni mætti nú flytja inn 412 tonn af alifuglakjöti á lægri tollum, í stað 59 tonna. WTO-kvótinn fyrir nautakjöt væri 215 tonn í stað 95 og fyrir svínakjöt 305 tonn í stað 64. Flytja mætti inn 286 tonn af ostum á lægri tollum, en ekki 125 eins og þetta úrelta neyzluviðmið gerir ráð fyrir (Tafla 15, bls. 44). FA hefur áður bent á að íslenzka ríkið brýtur með þessu í bága við þá skyldu sína að tryggja samkeppni við innlendan landbúnað og neytendum lægra verð. Stjórnvöldum er í lófa lagið að breyta þessum innflutningsheimildum einhliða og þarf ekki samningaviðræður við önnur ríki til.

Rifja má upp að í febrúar í fyrra urðu harðar deilur um skipan starfshópsins, sem vann skýrsluna. Samkvæmt upphaflegu uppleggi ráðuneytisins áttu hagsmunaaðilar í landbúnaði að verða ráðandi í hópnum en fulltrúar innflytjenda búvara og samtaka neytenda áttu ekki að eiga þar fulltrúa. Eftir að Félag atvinnurekenda, Samtök verzlunar og þjónustu, Neytendasamtökin og Samkeppniseftirlitið höfðu gagnrýnt samsetningu hópsins harðlega varð niðurstaðan sú að FA og SVÞ fengu þar fulltrúa, en ekki Neytendasamtökin.

„Breytt skipan starfshópsins hefur vafalaust orðið til þess að ágallarnir á núverandi kerfi tollverndar fyrir landbúnaðinn eru dregnir skýrar fram en ella hefði orðið,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Það breytir ekki því að skýrslan er fyrst og fremst lýsing á tolla- og viðskiptaumhverfinu, en inniheldur ekki neinar tillögur til breytinga á því. Það verður þó æ skýrara að ekki verður lengur unað við núverandi kerfi ofurtolla og innflutningshafta. Öll áherzla stjórnvalda er á að vernda innlenda framleiðendur, á kostnað neytenda og innflutningsverzlunar. FA mun á næstunni leggja fram sínar tillögur um breytingar á þessu kerfi.“

Skýrsla starfshóps um tollamál á sviði landbúnaðar

Nýjar fréttir

Innskráning