Skýrsla, sem ráðgjafarfyrirtækið Intellecon hefur unnið fyrir Félag atvinnurekenda um þróun launatengdra gjalda, verður kynnt á morgunverðarfundi kl. 8.30-9.30 miðvikudaginn 5. júní.
Skýrslan er unnin meðal annars í framhaldi af könnunum, sem FA hefur gert á meðal aðildarfyrirtækja sinna og sýna að hækkanir tryggingagjalds og annarra launatengdra gjalda á undanförnum árum valda félagsmönnum áhyggjum. Í síðustu könnun, sem gerð var meðal félagsmanna, var spurt hvert ætti að vera helsta baráttumál FA á árinu og var lækkun tryggingagjalds og annarra launatengdra gjalda oftast nefnd.
Í skýrslunni er farið yfir þróun launatengdra gjalda frá aldamótum, hvað það kostar atvinnurekandann að greiða miðlungslaun, hvað situr eftir í launaumslagi starfsmanna af heildarlaunakostnaði, þróun launakostnaðar og fleira sem tengist launatengdum kostnaði fyrirtækja. Miðað er við launagreiðslur til félagsmanna í VR, en yfirgnæfandi meirihluti starfsmanna hjá félagsmönnum FA er í því stéttarfélagi.
Dagskrá:
Hvað greiðir launagreiðandinn í raun? Þróun síðustu ára
Gunnar Haraldsson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Intellecon
Hvaða ályktanir má draga af skýrslunni?
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA
Fundarstjóri er Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður FA.
Fundurinn verður haldinn í fundarsal FA á 9. hæð í Húsi verslunarinnar. Hann er öllum opinn, en skráning hér að neðan nauðsynleg. Léttur morgunverður er í boði.