Snúningur Póstsins í boði neytenda og skattgreiðenda

04.12.2019

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Fréttablaðinu 5. desember 2019

Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, var í viðtali í Markaði Fréttablaðsins í síðustu viku. Þar var dregin upp jákvæð mynd af þróun mála hjá ríkisfyrirtækinu, undir fyrirsögninni „Öflugur viðsnúningur hjá Íslandspósti.“ Var meðal annars sagt frá því að dregið hefði úr hallarekstri fyrirtækisins og stefndi í að afkoman yrði við núllið á næsta ári.

Misheppnaðar fjárfestingar fyrrverandi stjórnenda í samkeppnisrekstri keyrðu Íslandspóst í greiðsluþrot. Það eru að sjálfsögðu góðar fréttir ef tekizt hefur að koma böndum á óráðsíuna og vitleysuna, sem viðgekkst árum saman hjá fyrirtækinu, á ábyrgð og undir eftirliti stjórnar fyrirtækisins sem valin er af stjórnmálaflokkunum á Alþingi. Myndin er samt kannski ekki alveg eins falleg og viðtalið við nýja forstjórann gaf til kynna.

Skattgreiðendur til bjargar
Í fyrsta lagi hefði Íslandspósti ekki verið haldið gangandi nema með aðstoð skattgreiðenda. Fyrirtækið hefur ekki verið rekstrarhæft í langan tíma. Hlutafé Póstsins hefur verið aukið um milljarð til að gera honum kleift að standa við skuldbindingar sínar. Þann milljarð borga skattgreiðendur. Þá hefur Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) tekið (afskaplega hæpna) ákvörðun um að Pósturinn fái um 1.500 milljóna króna framlag úr alþjónustusjóði vegna meints taps af millilandasendingum.  Væntanlega munu þeir peningar líka koma frá skattgreiðendum, því að sjóðurinn er tómur.

Viðskiptavinirnir ættu að fá verðlækkun
Í öðru lagi mega nýir stjórnendur Íslandspósts eiga að þeim hefur tekizt að lækka kostnað hjá fyrirtækinu umtalsvert, enda blasti það við þeim sem til þekkja að fyrirtækið hafði verið afskaplega illa rekið. Upplýst hefur verið að kostnaður hafi verið lækkaður um hálfan milljarð hið minnsta á ársgrundvelli og svigrúm sé til frekari hagræðingar.

Ekki hefur fengizt upplýst hvernig hagræðið skiptist á milli rekstrarþátta, en ætla má að það sé fyrst og fremst í alþjónustunni, sem ber allan fastan kostnað fyrirtækisins. Birgir forstjóri gleymir að nefna að í póstlögum, sem hafa gilt um starfsemina, er innbyggð hagræðingarskylda. Samkvæmt lögunum á gjaldskrá fyrir alþjónustu, sem Póst- og fjarskiptastofnun tekur ákvarðanir um, að taka mið af raunkostnaði, að viðbættri hæfilegri álagningu. Í reglugerð um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekenda er að finna skýra heimild PFS til að hafna kostnaði sem ekki er nauðsynlegur til að veita viðkomandi þjónustu.

Það blasir því við að hafi kostnaður við að veita alþjónustu lækkað, eiga viðskiptavinir Póstsins að njóta þess í lækkun gjaldskrár.

Gjaldskrár andstæðar lögum?
Sú lækkun bætist við það sem viðskiptavinirnir eiga inni hjá fyrirtækinu vegna oftekinna gjalda á árunum 2016 og 2017, en PFS hefur staðfest að umframhagnaður af einkaréttarrekstri á þessum árum nam tæplega milljarði króna. Ef gjaldskrá Póstsins fyrir bréfasendingar verður óbreytt eða hækkar jafnvel, er það lögbrot.

Neytendasamtökin reka nú mál fyrir Eftirlitsstofnun EFTA vegna hækkunar á gjaldskrá Íslandspósts vegna erlendra póstsendinga. Samtökin mótmæla því að kostnaði vegna rekstrarvanda Póstsins sé velt yfir á neytendur án þess að fyrir liggi greining á raunkostnaði vegna erlendra sendinga. Birgir hefur svarað þeim og sagt að kostnaðurinn sé vel þekktur, en gleymir þá að geta þess að hann hefur sjálfur sagt að hann hafi lækkað kostnað Póstsins um a.m.k. hálfan milljarð eftir að gjaldskráin var sett. Lögum samkvæmt verður að laga gjaldskrána að því.

Það er því útlit fyrir að Birgir forstjóri gæti þurft að endurskoða tekjuáætlunina, sem gefur til kynna að á næsta ári verði Pósturinn rekinn við núllið.

Ríkið er áfram í bullandi samkeppni
Í þriðja lagi segir Birgir frá því að öll dótturfélög Póstsins hafi nú verið seld eða séu á lokametrunum í söluferli. Með því sé verið að „skapa frið um Póstinn með því að bregðast við þeirri gagnrýni að Pósturinn hafi verið með umsvif á mörkuðum sem tengjast ekki kjarnastarfseminni með beinum hætti.“

Kjarnastarfsemi ríkisfyrirtækis? Dæmi um vöruúrvalið á pósthúsi.

Þetta er líka gott og blessað svo langt sem það nær; dótturfélög eins og prentsmiðjan Samskipti, Frakt ehf. og Gagnageymslan hafa verið seld. Samkeppnisrekstur Íslandspósts við einkafyrirtæki, sem oft er býsna fjarskyldur kjarnasamstarfseminni, fer hins vegar ekkert síður fram í móðurfélaginu. Allir sem þurfa að fara á pósthús vita að þau eru í harðri samkeppni við sjoppur, gjafavöruverzlanir, bóka- og ritfangaverzlanir og minjagripabúðir. Íslandspóstur rekur áfram gríðarlegan flota sendibíla í beinni samkeppni við einkareknar sendibílastöðvar. Miklar fjárfestingar undanfarið, til dæmis í póstboxum, gagnast fyrst og fremst samkeppnisrekstri Íslandspósts í bögglaþjónustu. Neyðarframlagið frá skattgreiðendum fer sem sagt í áframhaldandi sókn á samkeppnismörkuðum.

Skattgreiðendur og neytendur borga
Í viðtalinu kemur fram að Íslandspóstur glími við þunga afborgunarbyrði og mikla skuldsetningu eftir fjárfestingar síðustu ára. Sú byrði er fyrst og fremst til komin vegna misheppnaðra ævintýra í samkeppnisrekstri.

Ýmislegt bendir til að skattgreiðendur og neytendur – sem eru nú yfirleitt sama fólkið – verði látnir standa undir þeirri byrði, með fullu samþykki stjórnmálamanna og eftirlitsstofnana. Sú fyrirætlan verður auðveldari en ella, vegna þess að enn hefur ekki verið gerð almennileg úttekt á öllum þeim kolröngu ákvörðunum, sem komu ríkisfyrirtækinu á heljarþröm og hver beri á þeim ábyrgð. Slík úttekt yrði væntanlega afskaplega óþægileg, bæði fyrir stjórnmálamennina og eftirlitsstofnanirnar. En það er kannski efni í aðra grein.

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning