„Mér persónulega finnst ekki skipta neinu máli hvar áfengi fæst. Sá sem misnotar áfengi gerir það, sama hvar það fæst, það er bara þannig,“ segir Mummi Týr Þórarinsson, oddviti Pírata í Suðurkjördæmi og frumkvöðull í vímuefnameðferð. Hann var gestur Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í hlaðvarpsþættinum Kaffikróknum.
Ólafur spurði Mumma hvort hann teldi nauðsynlegt, út frá lýðheilsusjónarmiðum, að hafa ríkiseinokun í sölu á áfengi og hæstu áfengisskatta í hinum vestræna heimi. Mummi Týr gaf framangreint svar og bætt við að hann og Píratar væru hlynnt meira frjálsræði í þessum efnum. Persónulega sagðist hann líka telja að áfengi væri alltof dýrt á Íslandi og ein afleiðing þess væri að íslensk ferðaþjónusta verðlegði sig út af markaðnum. „Það er talað um að það þurfi að skattleggja áfengi svo mikið til að koma til móts við vandann. Svo er bara ekkert verið að koma til móts við vandann – þannig að hvert fara þessir peningar? Þeir eru ekki notaðir í meðferðarstarf eða fyrir Dúdda útigangsmann,“ sagði Mummi.
Krónan er tilraun sem mistókst
Mummi talar eindregið fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið, ekki síst til að geta tekið upp evru. „Krónan er einfaldlega í mínum huga til raun sem gersamlega mistókst,“ sagði Mummi. „Ég held þetta fari aldrei í lag fyrr en við tökum upp annan gjaldmiðil og þar er evran okkur næst. Ég vil að þjóðin ráði því á endanum, við píratar allir viljum þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrst um hvort við göngum í Evrópusambandið eða ekki. Ef þjóðin hafnar því, þá hætti ég að tuða á Facebook yfir þessu.“
Mummi segir að ekkert smáríki annað í heiminum noti sinn eigin gjaldmiðil. „Þetta er bara útópía og fólk tengir þetta einhvern veginn við torfbæinn og fánann og slátrið – en við þurfum að hafa hagkerfi sem virkar. Þetta hagkerfi er ekki að virka.“