Stærri fyrirtæki sæki um jafnlaunavottun hið fyrsta

30.08.2018
Ólafur Stephensen ræddi jafnlaunavottun við Stöð 2

Félag atvinnurekenda hvetur þau aðildarfyrirtæki sín, sem eru með fleiri en 250 starfsmenn, til að sækja um jafnlaunavottun hið fyrsta, hafi þau ekki þegar gert það. Samkvæmt lögum um jafnlaunavottun eiga stærri fyrirtæki að hafa hlotið jafnlaunavottun fyrir áramót. Úr því sem komið er, virðist ljóst að það muni ekki nást.

Ríkisútvarpið og Stöð 2 hafa undanfarna daga fjallað um málið. Í RÚV kom fram að eingöngu sextán af 142 fyrirtækjum á Íslandi með fleiri en 250 starfsmenn væru komin með jafnlaunavottun. Afgangurinn ætti því dagsektir yfir höfði sér frá og með áramótum.

Of bratt að beita dagsektum
Að mati Félags atvinnurekenda þarf að horfa til þess að jafnlaunavottunin er nýtt fyrirbæri. Mörg fyrirtæki hafa eflaust ekki áttað sig á því hversu tímafrekt ferlið við jafnlaunavottun er og hætta á að fjöldi umsókna berist vottunarfyrirtækjum rétt fyrir áramótin. Einungis tvö vottunarfyrirtæki hafa faggildingu til að veita jafnlaunavottun og við blasir að úr því sem komið er muni þau ekki ná að afgreiða allar umsóknir fyrir áramót.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að of bratt sé að beita fyrirtæki í þessum stærðarflokki dagsektum strax um áramót, verði þau ekki komin með jafnlaunavottun. Nær sé að horfa til þess að fyrirtækin sæki um á árinu. Ólafur nefndi einnig að mögulega ætti að horfa til fyrirkomulagsins við bifreiðaskoðun við endurskoðun á tímafrestum laganna um jafnlaunavottun, til að koma í veg fyrir að kúfur umsókna berist vottunarfyrirtækjum rétt fyrir áramót.

Frétt Stöðvar 2

Nýjar fréttir

Innskráning