Stafræn bylting í vöruupplýsingum – félagsfundur 16. mars

04.03.2021
Stafrænar lausnir gera neytendum kleift að lesa upplýsingar um vöru af strikamerki hennar með appi í símanum sínum.

Félag atvinnurekenda efnir til félagsfundar 16. mars kl. 10-12 í fundarsal félagsins á 9. hæð í Húsi verslunarinnar, undir yfirskriftinni Stafræn bylting í vöruupplýsingum. Á fundinum verður fjallað um Gagnalaug GS1 og þá möguleika sem hún veitir á miðlun vöruupplýsinga, einkum um matvörur, eftir allri virðiskeðjunni og til neytenda. Stafrænar lausnir í miðlun vöruupplýsinga til neytenda geta leyst úr ýmsum viðfangsefnum sem lengi hafa brunnið á versluninni, t.d. gert óþarft að endurmerkja matvörur frá framleiðendum utan Evrópska efnahagssvæðisins með tilheyrandi kostnaði og mætt óskum neytenda um auknar upplýsingar um upprunamerkingar, rekjanleika, vottanir, ofnæmis- og óþolsvalda o.fl.

Gagnalaug er alþjóðlegur miðlægur gagnagrunnur þar sem aðilar í aðfangakeðjunni geta skipst á vörugögnum á staðlaðan máta. Þessi staðall er þróaður og uppfærður af alþjóðasamtökunum GS1.  FA á 20% hlut í GS1 Ísland á móti öðrum samtökum í atvinnulífinu. GS1 úthlutar m.a. strikamerkjum og QR-kóðum til auðkenningar vöru. Gagnalaug ehf. er dótturfélag GS1 Ísland, sett á fót til að þróa áðurnefndan gagnagrunn, eða öllu heldur heilsteypta lausn byggða á staðfestum gæðagögnum. Notagildi og möguleikar Gagnalaugar eru gríðarlegir, til dæmis í því skyni að neytendur geti í gegnum smáforrit í símanum sínum nálgast allar helstu upplýsingar um vöruna, uppruna hennar og innihald, ofnæmisvalda o.s.frv. Margar spurningar hafa hins vegar vaknað hjá birgjum um ýmis atriði tengd Gagnalaug og verður leitast við að svara þeim á fundinum.

Dagskrá:

Stafrænar lausnir á pólitískum málum
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA fjallar um hvernig afstaða stjórnvalda til nýtingar stafrænna lausna til miðlunar vöruupplýsinga til neytenda hefur breyst á undanförnum misserum.

Kynning á GS1 Ísland
Jens Gunnarsson, framkvæmdastjóri GS1, fjallar um starf GS1 hingað til og framtíð vöruauðkenna.

Kynning á Gagnalaug
Andri Sigurðsson, vörustjóri Gagnalaugar útskýrir hvernig ferlið í kringum Gagnalaug virkar.

Reynsla birgja af Gagnalaug
Sigurjón Stefánsson, fyrrverandi deildarstjóri tölvudeildar hjá Sláturfélagi Suðurlands svf. og stjórnarformaður GS1 Ísland, lýsir því hvernig innleiðingin á Gagnalaug fór fram hjá SS á sínum tíma.

Fundarstjóri er Ólafur Stephensen.

Fundurinn er opinn félagsmönnum í FA. Gætt verður vel að sóttvörnum. Fundurinn er fullsetinn og ekki hægt að taka á móti fleiri skráningum.

 

 

 

Nýjar fréttir

11. september 2024

Innskráning