Íslensk-indverska viðskiptaráðið, sem FA hýsir og rekur, hélt í morgun streymisfund á ensku undir yfirskriftinni „Startup Bridges India Iceland“. Umfjöllunarefnið var fjárfestingar í sprotafyrirtækjum á milli landanna. Fundinum var stjórnað af Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA og ÍIV og Bala Kamallakharan, sem er formaður ÍIV og stofnandi Startup Iceland og Iceland Venture Studio. Balasubramanian Shyam, sendiherra Indlands á Íslandi, ávarpaði fundinn og fjallaði um nýsköpunarumhverfið á Indlandi. Þá sögðu þrír stofnendur sprotafyrirtækja, þau Jatin Solanki hjá Expertrons, Sigurlaug Ásta Jónsdóttir hjá Retina Risk og Amit Saxena hjá eKosh Finance, frá starfsemi og áskorunum fyrirtækja sinna.
Í máli Shyam sendiherra kom m.a. fram að hann hefði hvatt indversk sprotafyrirtæki til samstarfs við íslensk fyrirtæki þar sem Ísland væri frábær markaður til að prófa nýja vöru eða tækni, sem mætti síðan nýta á miklu stærri mörkuðum eins og þeim indverska.
Retina Risk er einmitt dæmi um fyrirtæki sem hefur nýtt tækni þróaða og sannreynda á Íslandi til aðstoða sykursjúka víð aum heim við að greina einstaklingsbunda áhættu þeirra á augnsjúkdómum og sjónskerðingu vegna sykursýki. App fyrirtækisins er von bráðar væntanlegt á hindi, því tungumáli sem flestir tala á Indlandi.
Saxena hjá eKosh fór yfir það hvernig fyrirtækið ynni að því að greiða aðgang örfyrirtækja á indverskum markaði að fjármálaþjónustu.
Jatin Solanki og Expertrons hafa þróað lausn fyrir sérfræðinga sem vilja koma sér á framfæri. Solanki sagði að heimsfaraldurinn hefði breytt ýmsu fyrir sprotafyrirtæki sem stefndu að því að þróa lausnir fyrir heiminn allan en ekki endilega eitt ríki eða svæði. Það væri orðið eðlilegt að fjárfestar kæmu úr öllum heimshornum og að teymi starfsmanna væri jafnframt dreift um heiminn.
Horfa má á upptöku af fundinum hér að neðan.