Stefnir í málshöfðun vegna fasteignagjalda

08.06.2017

Stjórn Félags atvinnurekenda samþykkti á fundi sínum í dag eftirfarandi ályktun:

„Stjórn Félags atvinnurekenda hvetur sveitarfélög eindregið til að endurskoða álagningarprósentu fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði, til mótvægis við gífurlegar hækkanir á fasteignamati. Að óbreyttu fela þær hækkanir í sér að skattbyrði fyrirtækja þyngist um milljarða króna.

Í síðustu viku var tilkynnt um miklar hækkanir fasteignamats fyrir árið 2018. Á höfuðborgarsvæðinu, þar sem mikill meirihluti allra fyrirtækja í landinu er staðsettur, hækkaði fasteignamat atvinnuhúsnæðis um 10,6%. Á tveimur árum hefur það hækkað um 20,7% og frá árinu 2013 um tæplega 55%. Á sama tíma nemur hækkun fasteignamats á landinu öllu rúmlega 48%.

Fasteignagjald er í eðli sínu óheppileg skattheimta á fyrirtæki, sem leggst á eigið fé þeirra óháð afkomu. Hækkanir á fasteignaverði og þar með fasteignamati hafa ekkert um afkomu flestra fyrirtækja að segja, en stuðla að aukinni skattbyrði þeirra. 

FA hefur áður skorað á sveitarfélögin að taka mið af þessu og lækka álagningarprósentu fasteignagjalda. Engu að síður hafa öll stærstu sveitarfélögin haldið álagningarprósentu óbreyttri undanfarin tvö ár. Þetta þýðir til dæmis að fasteignagjöld sem Reykjavíkurborg innheimtir af fyrirtækjum hækkuðu um rúman milljarð á milli áranna 2015 og 2016.

Lögum samkvæmt er fasteignagjald á atvinnuhúsnæði 1,32% af fasteignamati, en sveitarfélögum er heimilt að leggja á þá skattprósentu fjórðungsálag, sem þýðir að hámarksfasteignagjald er 1,650%. Að mati FA þarf að rökstyðja sérstaklega að beita slíkri heimild til aukaskattlagningar á fyrirtæki. Síðastliðið haust sendi félagið öllum sveitarfélögum, þar sem aðildarfyrirtæki FA starfa, beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun um að beita álaginu. Jafnframt var spurt hvort kostnaðarútreikningar lægju að baki þeirri ákvörðun. Í þeim tilvikum sem fyrirspurninni hefur verið svarað, kemur ekki fram neinn efnislegur rökstuðningur fyrir beitingu álagsins, annar en sá að sveitarfélögin þurfi að auka tekjur sínar. Þá voru engir kostnaðarútreikningar lagðir fram sem sýna fram á að beiting álagsins sé nauðsynleg til að standa undir þjónustu við fyrirtæki.

Ljóst er að fyrirtæki innan vébanda FA munu leita réttar síns hvað varðar útreikning og álagningu fasteignagjalda. Gera má ráð fyrir að Reykjavíkurborg verði birt stefna þess efnis síðar í sumar.

Stjórn FA ítrekar að hér er um að ræða mikið hagsmunamál fyrirtækjanna í landinu og skorar á sveitarfélögin að bregðast við.“

Upplýsingar um fasteignamat og fasteignagjöld á excel-formi

Viðtal við Ólaf Stephensen framkvæmdastjóra FA á Bylgjunni

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning