Stefnt að auknu samstarfi ÍIV og IIBA

05.09.2018
Ólafur Stephensen, Anna Hedvig Þorsteinsdóttir og Prasoon Dewan í lok fundar ÍIV og IIBA.

Íslensk-indverska viðskiptaráðið (ÍIV), sem Félag atvinnurekenda hýsir og rekur, fékk í dag góða heimsókn frá Prasoon Dewan, formanni Indversk-íslensku viðskiptasamtakanna (Indo-Icelandic Business Association, IIBA). Fram kom á fundinum að starfsemi samtakanna hefur verið stórefld og er stefnt að auknu samstarfi ÍIV og IIBA á næstunni.

Dewan sat fund með Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA og ÍIV, og Önnu Hedvig Þorsteinsdóttur, sölustjóra hjá Lýsi og stjórnarmanni í ÍIV. Í máli hans kom fram að geta IIBA til að svara fljótt og vel fyrirspurnum frá íslenskum fyrirtækjum hefði verið stórefld. Nýr vefur IIBA hefur verið settur í loftið, en þar má finna upplýsingar um starfsemi samtakanna, skrá sig í þau og senda þeim fyrirspurnir. IIBA nýtur stuðnings íslenska sendiráðsins í Nýju-Delí og er í nánu samstarfi við nýjan sendiherra Íslands, Guðmund Árna Stefánsson.

Dewan segir að aðildarfyrirtæki samtakanna séu nú um 40 talsins, en stefnt sé að því að fjölga þeim í 100 innan árs. Stjórn samtakanna hyggst á næstunni leggja áherslu á fimm svið í viðskiptum Íslands og Indlands, það er endurnýjanlega orkugjafa, heilbrigðisvörur og -þjónustu, kjötvörur, ferðaþjónustu og kvikmyndagerð. Þá er stefnt að samstarfi við háskólastofnanir og stuðningi við samstarf Íslands og Indlands í menningarmálum.

Að sögn Dewans eru miklar vonir bundnar við beint flug Wow Air til Nýju-Delí, sem mun hefjast í desember, að það muni efla viðskiptatengsl og opna nýja möguleika til dæmis í viðskiptum með ferskvöru á milli landanna.

Fulltrúar ÍIV og IIBA komust að samkomulagi um að stefna á næstunni að gerð nýs tvíhliða samnings um samstarf samtakanna til að efla og dýpka viðskiptatengsl milli Íslands og Indlands.

Vefur IIBA

Nýjar fréttir

Innskráning