Stefnt að stofnun íslensks-taílensks viðskiptaráðs

14.07.2016
IMG_1245
Vimon Kidchob, sendiherra Taílands, Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA og Anna M.Þ. Ólafsdóttir, aðalræðismaður Taílands.

Áformað er að stofna Íslensk-taílenska viðskiptaráðið 6. september næstkomandi. Þann dag mun Félag atvinnurekenda, í samstarfi við sendiráð Taílands í Kaupmannahöfn og aðalræðismann Taílands á Íslandi, gangast fyrir málþingi um tækifæri í viðskiptum Íslands og Taílands.

Vimon Kidchob, sendiherra Taílands í Kaupmannahöfn, sem jafnframt fer með fyrirsvar gagnvart Íslandi, og Anna M.Þ. Ólafsdóttir aðalræðismaður áttu í gær fund með Félagi atvinnurekenda þar sem drög voru lögð að dagskrá málþingsins. Áformað er að stofnfundur viðskiptaráðsins verði haldinn í beinu framhaldi af málþinginu.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að nokkur hópur fyrirtækja hafi þegar lýst áhuga á að taka þátt í stofnun viðskiptaráðsins. „Viðskipti milli Íslands og Taílands eru talsverð og vaxandi, en við höfum ekki fulla yfirsýn yfir þann hóp fyrirtækja sem eru í viðskiptum við Taíland. Ég hvet fyrirtæki sem hafa áhuga á að vera með í stofnun ráðsins að hafa samband við okkur hjá skrifstofu Félags atvinnurekenda,“ segir Ólafur.

Félag atvinnurekenda heldur nú þegar utan um rekstur tveggja viðskiptaráða Íslands og ríkja í Asíu; Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins og Íslensk-indverska viðskiptaráðsins. Tilgangur viðskiptaráðanna er að stuðla að og efla viðskipti á milli landanna, aðstoða við að koma á og treysta viðskiptasambönd, standa fyrir upplýsingamiðlun, skoðanaskiptum og samráði við stjórnvöld viðkomandi ríkja. Talsverður fjöldi viðburða er haldinn á ári hverju á vegum viðskiptaráðanna.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning