Stefnu um aukna fríverslun fagnað

25.01.2021
Eintök af skýrslu utanríkisráðuneytisins, Áfram gakk. (Mynd: utanríkisráðuneytið)

Félag atvinnurekenda fagnar þeirri stefnu­mörkun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utan­rík­is­ráð­herra, sem fram kemur í nýrri skýrslu um utanríkisviðskiptastefnu Íslands, að halda áfram á þeirri braut að auka frí­verslun og ryðja úr vegi hindr­unum í milli­ríkja­við­skiptum Íslands. Í viðtali við Kjarnann, sem fjallar um skýrsluna í fréttaskýringu, segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA að það komi skýrt fram í skýrsl­unni að Ísland sé lítið og opið hag­kerfi, sem á gíf­ur­lega mikið undir útflutn­ingi og ekki síður inn­flutn­ingi, enda sé inn­lend fram­leiðsla á neyt­enda­vörum til­tölu­lega fábreytt. Ísland eigi því meira en flest önnur ríki undir frjálsum alþjóða­við­skipt­u­m.

Íslenski  tvískinnungurinn enn við lýði
FA lýsir jafnframt ánægju með skýra stefnu nú þegar tals­vert er sótt að stjórn­völdum um að vinda ofan af skrefum sem hafa verið tekin í átt til frjáls­ari við­skipta með búvörur á síð­ustu árum. Ólafur bendir þó á að í skýrsl­unni komi enn fram sá tví­skinn­ung­ur, sem lengi hafi verið ákveð­inn ljóður á utan­rík­is­við­skipta­stefnu Íslands, að tala ein­dregið fyrir afnámi rík­is­styrkja og nið­ur­fell­ingu tolla í sjáv­ar­út­vegi en verja um leið rík­is­styrki og tolla í land­bún­aði, sem yfir­leitt eru settir á með sömu rökum og slíkar við­skipta­hindr­anir í sjáv­ar­út­veg­in­um.

Framkvæmastjóri FA segir að einnig sé í skýrslunni skautað heldur létt yfir toll­vernd íslensks land­bún­að­ar, en sam­kvæmt nýlegri skýrslu atvinnu­vega­ráðu­neyt­is­ins er hún marg­föld á við það sem er í Evr­ópu­sam­band­inu eða að með­al­tali í OECD-­ríkj­un­um.

Sjónum beint til Asíu
FA fagnar því að skýrslu­höf­undar taki með í reikn­ing­inn þró­un­ina í heims­hlutum sem telj­ast ekki til hefð­bund­inna mark­aðs­svæða Íslands, til dæmis gíf­ur­legan vöxt efn­aðrar milli­stéttar í Asíu. Í því samh­engi sé afar mik­il­vægt að tryggja aðgang íslenskra fyr­ir­tækja að þessum ört vax­andi mörk­uð­u­m. FA hefur beitt sér fyrir greiðari viðskiptum við Asíuríki, enda rekur félagið þrjú viðskiptaráð vegna viðskipta við Asíulönd; það Íslensk-kínverska, íslensk-indverska og íslensk-taílenska.

FA lýsir almennri ánægju með þá meg­in­stefnu sem er í átt til auk­ins frjáls­ræðis og sam­vinnu í alþjóða­við­skipt­um. Jafn­framt að Ísland skipi sér í sveit með ríkjum sem vilja efla reglu­verk WTO og tryggja að farið sé eftir því ef deilur koma upp í alþjóð­legum við­skiptum í stað þess að fara í tolla­stríð eins og gerst hefur und­an­farin ár. Félagið tekur heils hugar undir með utan­rík­is­ráð­herra þegar hann talar um mik­il­vægi þess að sporna við ein­angr­un­ar­stefnu og standa vörð um alþjóða­við­skipta­kerf­ið.

Bretar og Bandaríkjamenn vilja auka fríverslun með búvörur
Í fréttaskýringu Kjarnans, sem Bjarni Bragi Kjartansson skrifar, segir: „Orð Ólafs um tví­skinn­ung íslenskra stjórn­valda, hvað varðar toll­vernd og rík­is­styrki land­bún­að­ar, er rétt að hafa í huga þegar lagt er mat á metnað núver­andi utan­rík­is­ráð­herra og stjórn­valda hvað varðar ann­ars vegar gerð frí­versl­un­ar­samn­ings við Banda­ríkin og nýs við­skipta­samn­ings við Bret­land. Frí­verslun við Banda­ríkin er alltaf og án und­an­tekn­inga háð því að samn­ingar náist um frí­verslun með land­bún­að­ar­vör­ur. Það eitt og sér ætti að slá mjög á vænt­ingar um slíkan samn­ing.

Það sama á við um samn­inga við Bret­land. Í ljósi mik­il­vægis bresks land­bún­að­ar, og sterk­ari stöðu hans innan breska stjórn­kerf­is­ins eftir Brex­it, má ekki gera ráð fyrir öðru en að hags­muna­gæsla breskra bænda í við­skipta­samn­ingum við Ísland og hin EFTA-­ríkin verði síst minni en starfs­fé­laga þeirra innan EFTA.“

Nýjar fréttir

31. október 2024

Innskráning