Félag atvinnurekenda fagnar þeirri stefnumörkun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, sem fram kemur í nýrri skýrslu um utanríkisviðskiptastefnu Íslands, að halda áfram á þeirri braut að auka fríverslun og ryðja úr vegi hindrunum í milliríkjaviðskiptum Íslands. Í viðtali við Kjarnann, sem fjallar um skýrsluna í fréttaskýringu, segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA að það komi skýrt fram í skýrslunni að Ísland sé lítið og opið hagkerfi, sem á gífurlega mikið undir útflutningi og ekki síður innflutningi, enda sé innlend framleiðsla á neytendavörum tiltölulega fábreytt. Ísland eigi því meira en flest önnur ríki undir frjálsum alþjóðaviðskiptum.
Íslenski tvískinnungurinn enn við lýði
FA lýsir jafnframt ánægju með skýra stefnu nú þegar talsvert er sótt að stjórnvöldum um að vinda ofan af skrefum sem hafa verið tekin í átt til frjálsari viðskipta með búvörur á síðustu árum. Ólafur bendir þó á að í skýrslunni komi enn fram sá tvískinnungur, sem lengi hafi verið ákveðinn ljóður á utanríkisviðskiptastefnu Íslands, að tala eindregið fyrir afnámi ríkisstyrkja og niðurfellingu tolla í sjávarútvegi en verja um leið ríkisstyrki og tolla í landbúnaði, sem yfirleitt eru settir á með sömu rökum og slíkar viðskiptahindranir í sjávarútveginum.
Framkvæmastjóri FA segir að einnig sé í skýrslunni skautað heldur létt yfir tollvernd íslensks landbúnaðar, en samkvæmt nýlegri skýrslu atvinnuvegaráðuneytisins er hún margföld á við það sem er í Evrópusambandinu eða að meðaltali í OECD-ríkjunum.
Sjónum beint til Asíu
FA fagnar því að skýrsluhöfundar taki með í reikninginn þróunina í heimshlutum sem teljast ekki til hefðbundinna markaðssvæða Íslands, til dæmis gífurlegan vöxt efnaðrar millistéttar í Asíu. Í því samhengi sé afar mikilvægt að tryggja aðgang íslenskra fyrirtækja að þessum ört vaxandi mörkuðum. FA hefur beitt sér fyrir greiðari viðskiptum við Asíuríki, enda rekur félagið þrjú viðskiptaráð vegna viðskipta við Asíulönd; það Íslensk-kínverska, íslensk-indverska og íslensk-taílenska.
FA lýsir almennri ánægju með þá meginstefnu sem er í átt til aukins frjálsræðis og samvinnu í alþjóðaviðskiptum. Jafnframt að Ísland skipi sér í sveit með ríkjum sem vilja efla regluverk WTO og tryggja að farið sé eftir því ef deilur koma upp í alþjóðlegum viðskiptum í stað þess að fara í tollastríð eins og gerst hefur undanfarin ár. Félagið tekur heils hugar undir með utanríkisráðherra þegar hann talar um mikilvægi þess að sporna við einangrunarstefnu og standa vörð um alþjóðaviðskiptakerfið.
Bretar og Bandaríkjamenn vilja auka fríverslun með búvörur
Í fréttaskýringu Kjarnans, sem Bjarni Bragi Kjartansson skrifar, segir: „Orð Ólafs um tvískinnung íslenskra stjórnvalda, hvað varðar tollvernd og ríkisstyrki landbúnaðar, er rétt að hafa í huga þegar lagt er mat á metnað núverandi utanríkisráðherra og stjórnvalda hvað varðar annars vegar gerð fríverslunarsamnings við Bandaríkin og nýs viðskiptasamnings við Bretland. Fríverslun við Bandaríkin er alltaf og án undantekninga háð því að samningar náist um fríverslun með landbúnaðarvörur. Það eitt og sér ætti að slá mjög á væntingar um slíkan samning.
Það sama á við um samninga við Bretland. Í ljósi mikilvægis bresks landbúnaðar, og sterkari stöðu hans innan breska stjórnkerfisins eftir Brexit, má ekki gera ráð fyrir öðru en að hagsmunagæsla breskra bænda í viðskiptasamningum við Ísland og hin EFTA-ríkin verði síst minni en starfsfélaga þeirra innan EFTA.“