Stefnubreyting Bandaríkjanna vondar fréttir fyrir Ísland

31.03.2025

Fullt var út úr dyrum á morgunverðarfundi FA og millilandaviðskiptaráða félagsins um tollastefnu Donalds Trump Bandaríkjaforseta og áhrif hennar á Ísland. Frummælendur voru sammála um að stefnubreyting Bandaríkjanna undir stjórn Trumps væri vondar fréttir fyrir Ísland, sem yrði að skipa sér í sveit með Evrópuríkjum og öðrum sem áfram vildu standa vörð um frjáls alþjóðaviðskipti og virðingu fyrir lögum og reglum í alþjóðakerfinu. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum í spilaranum hér að neðan.

Tollarnir eins konar valdbeiting
Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, færði rök fyrir því að tollar Trumps minnkuðu ekki viðskiptahalla Bandaríkjanna. „Maður spyr; fyrst tollarnir minnka ekki viðskiptahalla, hvers vegna er þá verið að leggja þá á? Mér sýnist þetta vera eins konar valdbeiting … til að ná fram vilja sínum gagnvart öðrum löndum. Tollarnir einir og sér munu fyrst og fremst minnka umfang alþjóðaviðskipta, sem bitnar á litlum löndum en síður á þeim stóru,“ sagði Gylfi. „Við erum að fara inn í heim, sem er ekki eins og sá sem við höfum búið í undanfarna áratugi, þar sem eru lög og reglur og Bandaríkin eins konar lögregla sem heldur uppi lögum og reglu að mestu leyti í okkar heimshluta, heldur erum við að fara í hina áttina, þar sem eru sterkir menn, Pútín og Trump, sem skipta upp heiminum og fara sínu fram.“

Samdráttur og verðbólga gætu farið saman
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, fjallaði um tolla í hagfræðilegu samhengi og margvísleg neikvæð áhrif þeirra. Hann sagði hættu á að tollastríð myndi valda því að annars vegar drægist landframleiðsla margra ríkja saman og hins vegar myndi verðbólga aukast. Það væri ein óþægilegasta staða sem hagstjórnendur lentu í, að samdráttur og verðbólga færu saman. Óvissan, sem viðskiptastefna Bandaríkjanna byggi nú til, væri sjálfstætt vandamál og hringlandinn gerði vonda stefnu enn verri.

Jón benti á að Ísland flytti einkum tvennt út til Bandaríkjanna, annars vegar fisk og hins vegar iðnaðarvörur sem væru margar hverjar afurðir hugverkaiðnaðar, eins og lyf og lækningavörur. Hann sagði að nýir markaðir myndu væntanlega finnast fyrir sjávarafurðir, en í iðnaðarvörunum gæti Ísland orðið fyrir meiri skakkaföllum ef tollar yrðu lagðir á þær vörur. „Þetta eru geirarnir þar sem við bæði viljum og þurfum að vaxa á komandi árum í útflutningi. Þarna er hægt að búa til mikil verðmæti úr hugviti og sérhæfingu,“ sagði hann.

Jón Bjarki sagði lykilatriði að viðhalda greiðum viðskiptum við Evrópu og Asíu. Þeim mörkuðum yrði að halda opnum og lítið tolluðum.

Vondar fréttir fyrir smáríki eins og Ísland
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður og fyrrverandi utanríkisráðherra, sagði að kjör Trumps sprytti ekki úr engu; það væru ýmsar ástæður fyrir því að eftirspurn hefði verið eftir þannig forseta í Bandaríkjunum. „Það breytir ekki því að það sem hann er að gera eru vondar fréttir fyrir Ísland, það eru vondar fréttir fyrir smáríki, það eru vondar fréttir fyrir útflutningsdrifin hagkerfi, það eru vondar fréttir fyrir þau lönd sem eiga allt undir því að alþjóðakerfið haldi,“ sagði hún.

Þórdís sagði að stóra spurningin væri hvernig Evrópa myndi bregðast við stefnu Trumps. Evrópuríkin hefðu undanfarið sýnt jákvæð merki um að ætla að axla í vaxandi mæli ábyrgð á eigin vörnum og standa þéttar saman. Þar skipti stefnubreytingin í Þýskalandi miklu. Þórdís sagði að enn ætti eftir að koma í ljós hver afurð þessarar gerjunar í Evrópu yrði. „Ég er ekki viss um að hún verði afurð sem mun passa inn í skipurit Evrópusambandsins. Þarna eru ríki sem eru leiðandi eins og Bretland og Noregur, ríki sem eru ekki einu sinni í Evrópusambandinu. ESB er að glíma við ákveðnar áskoranir og ákveðin lönd sem er erfitt að ná samstöðu með – þannig að ég veit ekki hvar þessi nýi mekanismi verður til, hvort það verður utan eða innan Evrópusambandsins,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Hér fyrir neðan eru myndir frá fundinum.

Nýjar fréttir

Innskráning