Stjórn FA: Sveitarfélög auðveldi fyrirtækjum að komast út úr kreppunni með lækkun fasteignaskatta

10.06.2020

Stjórn Félags atvinnurekenda samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum í dag:

„Stjórn Félags atvinnurekenda hvetur sveitarfélögin eindregið til að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði við gerð fjárhagsáætlana fyrir næsta ár. Íþyngjandi skattbyrði vegna hækkana fasteignamats undanfarin ár gerir fyrirtækjum víða um land erfitt fyrir að ná sér á strik eftir kreppuna vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Samkvæmt nýbirtu fasteignamati fyrir árið 2021 hækkar fasteignamat atvinnuhúsnæðis á landinu enn, um 1,7% á landsvísu. Undanfarin sjö ár, þ.e. 2013-2019, hækkaði fasteignamat atvinnuhúsnæðis á landinu um tæplega 70%. Á sama tíma hækkuðu álagðir fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði úr 15,2 milljörðum króna í 26,7 milljarða, eða um 75%. Lækkun álagningarprósentu í nokkrum sveitarfélögum hefur þannig ekki unnið gegn gífurlegri þyngingu á skattbyrði fyrirtækjanna í landinu, sem var 11,5 milljörðum meiri árið 2019 en 2013.

Að mati stjórnar FA getur þetta ekki gengið svona áfram. Stjórnin skorar á sveitarfélögin að leggja sitt af mörkum til þess að létta undir með fyrirtækjum, sem þurfa á öllu sínu að halda til að reisa reksturinn við og skapa atvinnu eftir heimsfaraldurinn.

Stjórn FA skorar jafnframt á ríkisstjórnina og sveitarfélögin að setjast að samningaborði og semja um nýtt og sanngjarnara kerfi fasteignaskatta á fyrirtæki. Núverandi kerfi, þar sem skattlagning fylgir sveiflum í eignaverði, byggist á flóknum reikniformúlum og er fyrir vikið ógegnsæ og ófyrirsjáanleg, stenst ekki kröfur stjórnarskrárinnar um skýrleika skattlagningarheimilda.“

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning