Stjórn ÍEV: Reynt verði að lágmarka skaðann fyrir EES-samstarfið

19.11.2025

Stjórn Íslensk-evrópska verslunarráðsins hefur samþykkt eftirfarandi ályktun:

„Stjórn Íslensk-evrópska verslunarráðsins lýsir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun Evrópusambandsins að láta verndartolla á járnblendi ná til Íslands og Noregs. Þessi ákvörðun grefur undan þeirri meginstoð EES-samningsins, sem er frjálst flæði vöru milli aðildarríkjanna. Að mati ÍEV eru engar forsendur fyrir beitingu ESB á öryggisákvæðum í 112. grein EES-samningsins til að vernda hagsmuni járnblendivinnslu í sambandinu.

Á undanförnum árum eru mörg dæmi um að sérhagsmunaöfl í íslensku samfélagi hafi hvatt til brota á EES-samningnum í þágu meintrar verndar einstakra atvinnugreina eða fyrirtækja og má þá t.d. rifja upp brot íslenska ríkisins á ákvæðum samningsins um frjáls viðskipti með ferskt kjöt og egg og þá verndartolla sem hafa verið lagðir á unninn pitsuost síðastliðin ár, þvert á ákvæði samningsins. Að mati ÍEV má ákvörðun Evrópusambandsins ekki verða skálkaskjól til slíkra áframhaldandi brota á samningnum eða leiða til gagnaðgerða, sem veikja EES-samninginn enn frekar. Allir samningsaðilar eiga þvert á móti að leita leiða til að styrkja stoðir EES-samstarfsins og festa í sessi grundvallarreglur samningsins um frjálst flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns.

EES-samningurinn er mikilvægasti milliríkjasamningur sem Ísland hefur gert og ómetanlegur fyrir íslenskt atvinnulíf. ÍEV hvetur íslensk stjórnvöld til að nýta vel ákvæði hinnar nýju ákvörðunar ESB, um samráð og mat á áhrifum verndartollanna á þriggja mánaða fresti, til að gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja til hins ýtrasta og leitast við að lágmarka skaðann, bæði fyrir íslenskan útflutning og fyrir EES-samstarfið sem slíkt.“

Íslensk-evrópska verslunarráðið er rekið af Félagi atvinnurekenda. Sérstakt hlutverk ráðsins, samkvæmt samþykktum þess, er að beita sér fyrir því að rekstur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið gangi sem best og að allir aðilar samningsins standi við skuldbindingar sínar samkvæmt honum.

Nýjar fréttir

Innskráning