Stjórn Úrvinnslusjóðs starfhæf á ný

23.07.2015

Úrvinnslusjóður logoStjórn Úrvinnslusjoðs mun nú verða starfhæf á ný eftir að Alþingi breytti í annað sinn á skömmum tíma lögum um sjóðinn. Með flausturslegri lagabreytingu að frumkvæði umhverfis- og samgöngunefndar þingsins í fyrra voru fulltrúar atvinnulífsins sviptir meirihluta sínum í stjórn sjóðsins, en það gekk gegn skýrum tilgangi laganna um sjóðinn og er ekki í samræmi við evrópskt regluverk um framleiðendaábyrgð sem Ísland er bundið af.

Með lagabreytingunni 2014 var fulltrúi sjávarútvegsins settur út úr stjórn Úrvinnslusjóðs en Samband íslenskra sveitarfélaga látið hafa annan fulltrúa til viðbótar við þann sem það átti fyrir. Þannig höfðu ríki og sveitarfélög þrjá fulltrúa í stjórninni á móti þremur fulltrúum atvinnulífsins og gátu haft meirihluta, þar sem atkvæði formanns, sem umhverfisráðherra skipar, ræður úrslitum. Við þetta vildu samtök í atvinnulífinu ekki sætta sig og neituðu að tilnefna fulltrúa í stjórnina, sem fyrir vikið hefur verið óstarfhæf frá áramótum.

Eftir talsverða eftirgangsmuni flutti umhverfis- og samgöngunefnd þingsins frumvarp til að leiðrétta eigin klúður og varð það að lögum í vor. Hefur skipan stjórnar Úrvinnslusjóðs nú verið breytt á ný þannig að ráðherra skipar formann, Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir áfram tvo fulltrúa, fulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kemur aftur inn í stjórnina og auk þess eiga Félag atvinnurekenda, Samtök verslunar og þjónustu og Samtök iðnaðarins einn fulltrúa hvert.

Viðskiptablaðið fjallar um þetta mál í dag. Þar er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA, að hann sé sáttur með málalokin en þessi snúningur hafi allur verið óþarfur. „EF þingnefndin hefði í fyrsta lagi haft fyrir að kynna sér málið og forsöguna, hvaða forsendur lægju að baki lagasetningunni, í öðru lagi leitað til hagsmunaaaðila og haft eitthvert samráð og í þriðja lagi tekið mark á viðvörununum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um að það væri verið að gera vitleysu, þá hefði þetta ekki þurft að fara svona.“

Umfjöllun Viðskiptablaðsins

Nýjar fréttir

Innskráning