Stjórnendur Íslandspósts krafðir svara

17.07.2015

Spurningar til stjórnenda Íslandspósts

 Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptablaðinu 16. júlí 2015.

Pósturinn logoÍ síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins var fjallað um taprekstur og lausafjárvanda ríkisfyrirtækisins Íslandspósts ohf. Fjármálastjóri fyrirtækisins upplýsti þar meðal annars að tapreksturinn væri fjármagnaður með lánsfé og yfirdráttarheimildir nýttar stóran hluta hvers mánaðar. Fram kom að leitað yrði eftir frekari lánafyrirgreiðslu hjá viðskiptabanka fyrirtækisins. Eiríkur Haukur Hauksson, stjórnarformaður fyrirtækisins, segir það að óbreyttu stefna í þrot, nema leyfi fáist til að hagræða í rekstrinum – og er þar væntanlega átt við að draga úr lögbundinni þjónustu Íslandspósts við almenning.

Í greininni er tilgreind sú eina ástæða fyrir taprekstrinum að bréfamagn hafi minnkað. Þar er ekki vikið að því sem Viðskiptablaðið hefur þó talsvert fjallað um undanfarið; stórfelldar fjárfestingar Íslandspósts í samkeppnisrekstri sem er allsendis óskyldur kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Lengi vel hafa ársreikningar Íslandspósts sýnt hagnað af einkaréttarstarfsemi fyrirtækisins en tap á samkeppnisrekstrinum. Undanfarin ár hefur hins vegar vantað lögbundna sundurgreiningu á afkomu mismunandi rekstrarþátta fyrirtækisins í ársskýrslurnar vegna ágreinings Íslandspósts og Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) um bókhaldsaðferðir og mat á kostnaðargrunni fyrirtækisins. PFS hefur meðal annars hafnað „leiðréttingarfærslum“ Íslandspósts, þar sem kostnaður upp á hundruð milljóna hefur verið færður af samkeppnisrekstrinum yfir á einkaréttarhlutann.

Tengd fyrirtæki endurgreiddu ekki lán
Í ljósi þess að kostnaðargrunnur Íslandspósts er umdeildur og lögbundið uppgjör á afkomu einstakra þjónustuþátta liggur ekki fyrir, hljóta ýmsar spurningar að vakna um afkomu félagsins og fyrirhugaðar lántökur. Eigendur fyrirtækisins, skattgreiðendur, og ekki síður keppinautar sem heyja ósanngjarna baráttu við ríkisfyrirtækið, eiga heimtingu á að þeim spurningum sé svarað. Þeirra á meðal eru þessar:

  • Hver er heildarfjárfesting Íslandspósts í samkeppnisrekstri utan alþjónustu frá árinu 2005, þar með talin kaup á fyrirtækjum, fasteignum og lóðum, tækjum og bifreiðum og kostnaður við innri og ytri uppbyggingu þessa hluta fyrirtækisins?
  • Hver er heildarupphæð lána sem Íslandspóstur hefur veitt tengdum fyrirtækjum frá árinu 2005 (þar með töldum dótturfélögum), hverjir eru skilmálar samninga og eru lánin í skilum?
  • Hver er uppruni þess fjármagns sem nýtt hefur verið til fjárfestinga og uppbyggingar í samkeppnisrekstri hjá Íslandspósti ohf?

Ein ástæða þess að nauðsynlegt er að spyrja þessara spurninga er að Íslandspóstur hefur veitt fyrirtækjum í óskyldum rekstri lánafyrirgreiðslu sem mjög hefur skekkt samkeppnina á viðkomandi mörkuðum. Ætla má að þessi lánastarfsemi hafi líka haft afar neikvæð áhrif á afkomu Íslandspósts.

Árið 2013 lánaði Íslandspóstur þannig dótturfyrirtækinu ePósti 247 milljónir króna án trygginga, lánasamninga eða kröfu um eðlilega vexti. Íslandspóstur fjármagnaði lánið meðal annars með eigin yfirdráttarláni, en nú hefur fengizt upplýst að það fáist ekki endurgreitt. Ríkisfyrirtækið situr þá væntanlega uppi með að endurgreiða lánið ásamt vöxtum.

Sama átti við um prentsmiðjuna Samskipti ehf.; það fyrirtæki fékk lán frá Íslandspósti sem ekki fékkst endurgreitt, láninu var breytt í hlutafé og rekstri ríkisprentsmiðjunnar þannig bjargað fyrir horn. Keppinautar fyrirtækisins á prentmarkaði njóta ekki slíkrar fyrirgreiðslu á fjármálamarkaði.

Um þetta þurfa stjórnendur Íslandspósts líka að gefa almenningi skýr svör:

  • Hver er uppruni þess fjármagns sem Íslandspóstur lánaði félögum úr óskyldum rekstri?
  • Hvaða áhrif hefði það á lausafjárstöðu Íslandspósts ef lán til félaga í óskyldum rekstri fengjust að fullu endurgreidd ásamt vöxtum?
  • Telur stjórn Íslandspósts eðlilegt og í samræmi við lög að mæta tapi sem skapast af brölti ríkisfyrirtækis á samkeppnismörkuðum með skerðingu á grunnþjónustu sem varin er af einkarétti?

Skilyrði laga og reglna ekki uppfyllt
Undanfarin ár hefur Íslandspóstur, eins og áður er rakið, ekki birt afkomu einstakra rekstrarþátta þrátt fyrir ákvæði reglugerðar um bókhaldslega og fjárhagslega aðgreiningu í rekstri póstrekanda. „Leiðréttingarfærslur“ stjórnenda Íslandspósts hafa stuðlað að því að sýna afkomu einkaréttarstarfseminnar verri en raunin er, en ýkt afkomu samkeppnisrekstrarins til hins betra. Það er mikilvægt að fyrirtækið geri hreint fyrir sínum dyrum og birti afkomu einstakra rekstrarþátta undanfarin ár með þeim hætti sem lög og reglur gera ráð fyrir. Þess vegna er ástæða til að spyrja:

  • Hversu háar upphæðir færðu stjórnendur Íslandspósts ranglega á einkaréttarrekstur í formi svokallaðra leiðréttingarfærslna árin 2006-2014? Hvernig skiptust þær á milli samkeppnisreksturs innan alþjónustu og utan? Hafa þær verið endurgreiddar og báru þær vexti?
  • Hvernig er skipting tekna og gjalda eftir rekstrarþáttum frá árinu 2006 þar sem eignarekstri, sem samanstendur af tekjum mismunandi rekstrarþátta og áhrifa dótturfélaga er sullað saman í eina tölu, hefur verið skipt niður á rekstrarþætti í samræmi við reglugerð og leiðréttingarfærslur bakfærðar?

Ef tilfellið er að hallarekstur Íslandspósts og erfið lausafjárstaða er að verulegu leyti til komin vegna rangra fjárfestinga og taprekstrar í samkeppnisrekstri er afar hæpið að einkaréttarhluti fyrirtækisins taki lán til að rétta stöðuna af. Vegna lögbundinnar aðgreiningar einkaréttarþjónustu og samkeppnisrekstrar Íslandspósts mætti fé fyrir afborgunum af þeim lánum ekki koma frá einkaréttarhlutanum. Er þá tryggt að ríkisfyrirtækið geti yfirleitt staðið í skilum við lánardrottna sína?

Þess er hér með óskað að Helga Sigríður Böðvarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandspósts, og Eiríkur Haukur Hauksson stjórnarformaður svari þessum spurningum. Eigendur Íslandspósts og keppinautar eiga rétt á að svörin séu undanbragðalaus.

Nýjar fréttir

Innskráning