Stjórnvöld í þjónustu sérhagsmuna

14.06.2023

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptamogganum 14. júní 2023.

Heldur var lágt risið á Alþingi Íslendinga þegar þingmenn fóru í sumarfrí í síðustu viku án þess að samþykkja framlengingu á tollfrelsi fyrir vörur frá Úkraínu. Bráðabirgðaákvæði um niðurfellingu tolla, sem þingið samþykkti fyrir ári, féll úr gildi um mánaðamótin og þingmenn og ráðherrar létu undan þrýstingi sérhagsmunahóps, Bændasamtaka Íslands og Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, sem lágu í stjórnvöldum að framlengja ekki ákvæðið.

Jafnvel ráðherrar í ríkisstjórninni sögðu réttilega að þessi málalok væru til skammar. Þingið varð með samþykkt frumvarps fjármálaráðherra um tollfrelsið í fyrra við bón úkraínskra stjórnvalda um stuðning við þarlent atvinnulíf, sem hefur orðið fyrir miklum búsifjum í stríðinu við Rússland. Í ljósi þess að Ísland leggur ekki tolla á aðrar vörur en búvörur, og þá aðallega sams konar vörur og eru framleiddar hér á landi, mátti öllum vera ljóst að ef stuðningurinn ætti að skipta Úkraínu einhverju raunverulegu máli, yrðu fluttar inn búvörur sem væru í samkeppni við innlenda framleiðslu. Nú er helzt á sumum talsmönnum landbúnaðarins og stuðningsmönnum þeirra á þingi að skilja að forsenda fyrir stuðningnum á sínum tíma hafi verið að hann myndi ekki hjálpa úkraínsku þjóðinni í raun af því að ekkert yrði flutt inn!

Stjórnmálamönnunum þykir þjónkunin við sérhagsmunina svolítið vandræðaleg og þeir reyna að forðast að segja hreint út að þeir séu í vasa hagsmunaafla, en kasta þess í stað á milli sín heitum kartöflum. Þannig lagði fjármálaráðherrann, sem lagði fram málið í fyrra, til við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að hún flytti frumvarp um framlengingu lagaákvæðisins, í stað þess að gera það sjálfur. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar sagði hins vegar að ríkisstjórnin hefði átt að leggja fram frumvarp.

Öll lætin eru út af innflutningi á úkraínskum kjúklingabringum, sem að mati matvælaráðuneytisins nemur um 2-3% af markaðnum fyrir kjúklingakjöt. Hann hefur þannig í raun ekki nein teljandi áhrif á innlenda hagsmuni, en talsmönnum landbúnaðarins finnst bara óþolandi að neytendur fái að sjá í frystiborðum verzlana hvernig verð á innfluttum kjúklingi gæti verið ef ekki væru lagðir á hann tollar – um 50% lægra en á innlendu kjúklingakjöti. Þess vegna var lögð þvílík ofuráherzla á að taka fyrir innflutninginn.

Þetta mál er langt frá því að vera eina dæmið um að stjórnkerfið geri bara eins og hagsmunaaðilar í landbúnaði segja því. Stutt er síðan Félag atvinnurekenda vakti athygli á að fjármálaráðuneytið og yfirstjórn Skattsins hlýddu Bændasamtökunum og Mjólkursamsölunni og breyttu tollflokkun á pitsuosti, þvert á álit sérfræðinga Skattsins, sem sögðu sig frá málinu þar sem þeir töldu lögbrot í gangi. Alþjóðatollastofnunin úrskurðaði í marz að Ísland hefði tollflokkað vöruna ranglega, en ekkert bendir til að íslenzk stjórnvöld ætli að gera neitt með þá ákvörðun. Hagsmunir Mjólkursamsölunnar skipta meira máli en rétt tollflokkun í alþjóðaviðskiptum.

Það er heldur ekki langt síðan kerfi útboðs á tollkvótum var breytt til að leitast við að lækka útboðsgjaldið, sem innflutningsfyrirtæki þurfa að greiða fyrir að fá að flytja inn vörur án tolla. Breytingin var gerð í árslok 2019 og leiddi strax árið 2020 til þess að útboðsgjaldið lækkaði. Hagsmunaaðilar í landbúnaði kvörtuðu og Alþingi samþykkti snarlega frumvarp þáverandi landbúnaðarráðherra um að taka upp gömlu útboðsaðferðina aftur tímabundið. Þar með hafði nýja kerfið verið eyðilagt, útboðsgjaldið heldur áfram að hækka og slagar nú upp í fullan toll á sumum vörum. Þar með hverfur ávinningur neytenda og verzlunar af alþjóðlegum fríverzlunarsamningum Íslands, en verndinni fyrir landbúnaðinn er viðhaldið.

Stjórnvöld í Úkraínu hafa vakið athygli og aðdáun okkar flestra fyrir að standa í lappirnar gagnvart ofbeldi og einræðistilburðum Rússlands og verja lýðræði og frelsi okkar allra. Hvað á okkur að finnast um stjórnvöld sem geta ekki einu sinni staðið í lappirnar gagnvart litlum hagsmunahópi?

Nýjar fréttir

Innskráning