Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Morgunblaðinu 17. desember 2022.
Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, skrifaði um margt ágæta grein í Morgunblaðið miðvikudaginn 14. desember, þar sem hún fer yfir ýmsar áskoranir landbúnaðarins á leið að markmiðinu um kolefnishlutleysi. Hægt er að taka undir margt í greininni, eins og það að landbúnaðurinn, rétt eins og aðrar atvinnugreinar, þarf að hafa réttu hvatana til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.
Ég staldraði hins vegar við eftirfarandi: „Tryggja þarf samkeppnishæfni í framleiðslu, þ.e. stöðva verður innflutning á vörum sem ekki eru gerðar sömu framleiðslukröfur til út frá umhverfissjónarmiðum.“ (Leturbreyting mín)
Nú er ekki hægt annað en að hrósa talsmönnum landbúnaðarins fyrir hugkvæmni í því að hugsa upp sífellt nýjar réttlætingar fyrir verndarstefnu og samkeppnishömlum – en fæst bendir til að þessi krafa hafi verið hugsuð til enda.
Umhverfis- og loftslagsvæn framleiðsla hefur samkeppnisforskot, sem mun aukast eftir því sem vitund neytenda um mikilvægi slíkra framleiðsluhátta eykst. Við verðum að vona að tillaga Vigdísar verði ekki útflutningsvara, því að þá gætu ýmis lönd sem gera miklu betur en Ísland í þeim efnum gert kröfu um að innflutningur á íslenzkum matvörum yrði bannaður.
Svo dæmi sé tekið, er sauðfjárrækt á Nýja Sjálandi nálægt því að vera kolefnishlutlaus en íslenzk sauðfjárrækt er mjög langt frá því. Fræðimenn við Landbúnaðarháskóla Íslands hafa þannig reiknað út að losun við framleiðslu á einu kílói af íslenzku lambakjöti sé svipuð og af flugferð frá Íslandi til meginlands Evrópu. Viljum við að önnur ríki loki á útflutning Íslands á lambakjöti á meðan munurinn er þeim í hag?
Með sama hætti gætu þeir sem vilja vernda illa rekinn sjávarútveg í samkeppnislöndum Íslands eflaust kokkað upp einhverjar loftslagsréttlætingar fyrir því að banna innflutning á fiski frá Íslandi. Væri það gott fyrir íslenzkan þjóðarhag?
Eigum við kannski að fara með hugmyndina alla leið og banna íslenzkar landbúnaðarafurðir ef innflutt vara er umhverfisvænni? Eða snýst hugmyndin kannski ekki um umhverfisvernd, heldur samkeppnisvernd?
Íslenzkur landbúnaður á ekki að vera svo hræddur við samkeppni að hann telji að það eigi að banna hana. Hann á þvert á móti að taka henni fagnandi og reyna að gera betur – og skapa sér þannig með tímanum betri samkeppnisstöðu.
Ísland sem matvælaútflutningsland á mikið undir því að alþjóðaviðskipti með mat séu sem frjálsust og að alls konar hömlur á þeim viðskiptum í þágu sérhagsmuna séu sem minnstar. Getum við ekki bara stefnt að því að róa öllum árum að kolefnishlutleysi í þágu loftslagsins, en sleppt því að spilla í leiðinni viðskiptafrelsinu, sem hefur skilað okkur svo miklum hagsbótum?