Umsvifamikill innlendur framleiðandi svína- og alifuglakjöts fékk í sinn hlut stærstan hluta tollkvóta til að flytja viðkomandi kjöttegundir inn frá Evrópusambandinu á þessu ári, samkvæmt tilkynningu atvinnuvegaráðuneytisins. Mata ehf., systurfyrirtæki Síldar og fisks og Matfugls, fær þannig í sinn hlut 61,8% tollkvótans fyrir svínakjöt og 42,65% af tollkvóta fyrir alifuglakjöt. Ætla verður að innflutningurinn sé nýttur á vegum systurfyrirtækjanna og kjötið ýmist unnið áfram eða pakkað í neytendaumbúðir á þeirra vegum. Öll eru fyrirtækin í eigu Langasjávar hf, sem er svo að stærstum hluta í eigu Coldrock Investments á Möltu.
Mata hefur oft á undanförnum árum fengið stærstan hluta svínakjötskvótans í sinn hlut; fékk til dæmis 90,9% af honum árið 2012, 69,4% árið 2016 og 59,5% í fyrra. Í fyrra fékk Mata ennfremur 24% alifuglakjötskvótans.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að félagið hafi ítrekað bent á að ein neikvæð afleiðing núverandi kerfis, þar sem tollkvótar eru boðnir upp, sé að innlendir framleiðendur geti tekið þátt í útboðum á tollkvóta og haft þannig áhrif á verð innflutningsins með því að bjóða hátt í innflutningsheimildirnar. Meðalverð fyrir kíló af svínakjötskvóta var í síðasta útboði 378 krónur á kíló, en hæsta boð 500 krónur á kíló. Meðalverðið á kíló af alifuglakjöti var 620 krónur, en hæsta boð 670 krónur.
„Það vekur hins vegar athygli að einn stærsti framleiðandi svína- og kjúklingakjöts á landinu hefur augljóslega ekki sömu áhyggjur af því að innflutningurinn sé óheilnæmur og félög kjúklingabænda og svínabænda. Enda eru það óþarfar áhyggjur; þetta kjöt er framleitt samkvæmt sömu heilbrigðisreglum og undir sama eða strangara heilbrigðiseftirliti og innlend framleiðsla,“ segir Ólafur.