Strangari kröfur um merkingar hækka verð á hreinsiefnum

24.04.2017

Frá og með 1. júní 2017 þurfa allar vörur sem falla undir reglugerð Evrópusambandsins nr. 1272/2008 um flokkun, merkingu og pökkun efna og blandna (gjarnan nefnd CLP reglugerðin) og markaðssettar eru hér á landi að vera merktar á íslensku. Reglugerðin var innleidd hér á landi með reglugerð nr. 415/2014. Fjöldinn allur af vörum fellur undir nefndar reglur, t.d. hreinsiefni sem notuð eru við þrif á heimilum; uppþvottalögur, gluggasprey, gólfsápa og þvottaefni.

Breyttar kröfur varðandi vægustu efnin
Samkvæmt 4. gr. hinnar íslensku reglugerðar nr. 415/2014 skulu merkingar á efnum og efnablöndum vera á íslensku. Reglugerðin felur í sér breyttar kröfur að þessu leyti því áður var einungis gerð krafa um íslenskar merkingar á efnum/efnablöndum sem eru verulega hættulegar. Ljóst er að hið breytta regluverk leiðir af sér gífurlegt umstang og kostnað fyrir fyrirtæki sem nú þurfa að sérmerkja allar hreinsivörur með íslenskum merkingum, í stað einungis hluta þeirra áður. Samkvæmt upplýsingum sem FA hefur aflað sér hjá aðildarfyrirtækjum geta þessar hertu kröfur leitt til þess að algeng hreinsiefni hækki í verði um að minnsta kosti 10-20%.

Svigrúm í Evrópureglum ekki nýtt
FA sendi erindi á umhverfis- og auðlindaráðuneytið vegna málsins í byrjun desember 2016 og átti í framhaldinu fund með fulltrúum ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar. Þar var athygli vakin á afleiðingum fyrirhugaðra breytinga, þ.m.t. gríðarlegri kostnaðaraukningu íslenskra fyrirtækja sem getur lent á neytendum með hærra vöruverði. Einnig var bent á að í evrópsku reglugerðinni er aðildarríkjum veitt ákveðið svigrúm varðandi merkingar en þar segir í 17. gr. sem hefur að geyma meginreglur um merkingu efna og efnablandna:

The label shall be written in the official language(s) of the Member State(s) where the substance or mixture is placed on the market, unless the Member State(s) concerned provide(s) otherwise.

Með öðrum orðum þurfa aðildarríkin ekki nauðsynlega að setja reglur um merkingar á opinberu tungumáli sínu.

FA gagnrýndi í erindi sínu að hvergi væri vikið að þessum möguleika í hinni íslensku reglugerð og skoraði á ráðuneytið að reglugerðin yrði tekin til endurskoðunar. Nauðsynlegt væri að taka tillit til smæðar hins innlenda markaðar við innleiðingu ESB-reglugerðarinnar og það svigrúm sem veitt er í reglugerðinni nýtt til þess að ekki séu lagðar óþarfa íþyngjandi kvaðir á innflytjendur með tilheyrandi kostnaði.

Enn hefur ekki borist svar frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu við erindi FA.

Framkvæmdin í öðrum örríkjum á EES ekki skoðuð
Þó dró til tíðinda í byrjun mánaðar en þá stóð Umhverfisstofnun fyrir kynningarfundi um merkingar á efnavöru, í samstarfi við FA, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Þar kom fram að merkingarnar skulu vera á íslensku. Slíkt væri nauðsynlegt til að tryggja örugga notkun. Merkingarnar þyrftu að vera á tungumáli sem búast mætti við að sem flestir skilji auk þess sem mikil áhersla væri lögð á það innan EES að merkingar væru á þjóðtungu viðkomandi aðildarríkis. Aðspurður neitaði fulltrúi Umhverfisstofnunar því á fundinum að áðurnefnd undanþága hefði verið skoðuð sérstaklega með tilliti til smæðar Íslands og ekki hefði verið kannað hvernig framkvæmdin væri í öðrum örríkjum innan EES.

Röksemdir Umhverfisstofnunar fyrir íslenskukröfunni voru harðlega gagnrýndar af fundarmönnum og var þar m.a. bent á að sífellt hærra hlutfall íbúa á Íslandi hefur ekki íslensku að móðurmáli eða talar hana jafnvel alls ekki. Nauðsynlegt væri að taka inn í reikninginn smæð hins íslenska markaðar en nánast útilokað væri að fá erlenda framleiðendur til að sérmerkja vörur fyrir svo lítinn markað. Innflytjendur myndu því þurfa að sérmerkja allar vörur sem myndi leiða til allt að 30% hækkunar á útsöluverði.

Ráðuneytið nýti svigrúmið
„Þetta er að okkar mati enn eitt dæmið um að íslensk stjórnvöld nýta ekki svigrúmið sem er gefið í Evrópureglum til að fara þá leið sem er minnst íþyngjandi fyrir fyrirtækin,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Vissulega liggja sjónarmið um öryggi neytenda að baki kröfunni um merkingar á íslensku. Annars vegar þarf að vigta þau rök á móti hagsmunum neytenda af að fá þessar vörur á sem hagstæðustu verði og hins vegar þarf að horfa til þess að það hefur lengi þótt duga að hreinsiefni með vægum efnablöndum væru merkt á ensku og/eða Norðurlandamálum, enda er kunnátta í þeim tungumálum útbreidd hér á landi. Við hvetjum ráðuneytið til að nýta það svigrúm sem er gefið í reglunum.“

 

Umfjöllun um kynningarfundinn og glærur frummælenda

 

 

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning