Óhætt er að segja að sveitarfélög landsins noti ólíkar aðferðir til að laða að sér starfsemi fyrirtækja og búa þeim hagstætt rekstrarumhverfi. Í Viðskiptablaðinu í dag er fjallað um gagnrýni Félags atvinnurekenda á að mörg stór sveitarfélög, sem lækka nú álagningarprósentu fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði til að mæta gífurlegum hækkunum á fasteignamati, sýni fyrirtækjunum ekki sömu sanngirni. Þrír forsvarsmenn sveitarfélaga verða fyrir svörum.
Segja fyrirtækin í betri stöðu
S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs Reykjavíkur, segir: „Við erum fyrst og fremst að hugsa um að minnka byrðina á fólk sem býr í eigin húsnæði. Efnahagslífið er nokkuð sterkt og það virðist vera ágætur „bisness“ hjá fyrirtækjum í landinu. Við teljum einfaldlega að atvinnulífið sé í stakk búið til að greiða það fasteignagjald sem myndast af verðmæti þeirra eigna og í einhverjum tilvikum þeirri veltu sem starfsemin er í. Atvinnulífið hefur betri forsendur til að standa undir fasteignagjöldum heldur en íbúðamarkaðurinn, sem hefur upplifað miklar verðhækkanir.“
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir: „Hækkun fasteignamats og fasteignagjalds er ekki svo mikil á atvinnuhúsnæði að það fari fyrir hagsældina og kaupmáttinn almennt. Fasteignagjöldin eru einu tekjurnar sem við höfum af fyrirtækjunum og okkur finnst eðlilegt að þau taki þátt í samneyslunni.“
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs á Akureyri, hefur eftirfarandi að segja: „Rekstur aðalsjóðs hefur verið í járnum og svigrúmið er einfaldlega ekki mikið til að lækka tekjustofna … Afkoman hefur hins vegar verið að batna og með því að lækka álögur á íbúðarhúsnæði erum við að taka fyrstu skrefin í að lækka fasteignaskatta almennt. Við viljum hins vegar fara varlega í það. Íbúarnir koma fyrst og ef rekstur aðalsjóðs heldur áfram að batna þá má búast við því að við tökum frekari skref til lækkunar fasteignaskatts.“
Hafnarfjörður sýnir fyrirtækjum sanngirni
Reykjavík, Garðabær og Akureyri innheimta hæstu fasteignagjald af atvinnuhúsnæði sem lög leyfa, eða 1,650% af fasteignamati. Í Hafnarfirði hefur hins vegar verið ákveðið að lækka fasteignagjald úr 1,650% í 1,570%, sem er mesta lækkunin meðal sveitarfélaga landsins.
Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem segir: „Meirihluti bæjarstjórnar í Hafnarfirði leggur mikla áherslu á gott og aðlaðandi starfsumhverfi og hefur samþykkt að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts á atvinnufyrirtæki úr 1,650% í 1,570% eða um 0,08% Aðeins þrjú af stærstu sveitarfélögum landsins hafa tilkynnt um lækkun þessa skatts á næsta ári og lækkar hann áberandi mest í Hafnarfirði. Þetta er gert til að mæta miklum hækkunum á fasteignamati sem vitaskuld er íþyngjandi fyrir fyrirtækin og þeim því sýnd sama sanngirni og íbúum sveitarfélagsins, jafnt fyrirtækjunum sem fyrir eru í bænum sem og þeim sem líta til Hafnarfjarðar með framtíðarstaðsetningu í huga.“
Kópavogur, Akranes og Stykkishólmur hafa einnig ákveðið að lækka fasteignagjald á atvinnuhúsnæði á næsta ári til að létta skattbyrði fyrirtækja, sem hefur þyngst verulega vegna hækkana á fasteignamati.