Sveitarfélög lækki skatthlutfall á atvinnuhúsnæði

14.06.2016

Stjórn Félags atvinnurekenda samþykkti eftirfarandi ályktun í dag:

atvinnuhusnaediStjórn Félags atvinnurekenda skorar á sveitarfélög landsins að endurskoða álagningarprósentu fasteignagjalda til að mæta miklum hækkunum á fasteignamati atvinnuhúsnæðis undanfarin ár.

Í síðustu viku var sagt frá nýju fasteignamati fyrir árið 2017. Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 7,6% á landinu en 9,1% á höfuðborgarsvæðinu. Að óbreyttu þýðir þetta hundruð milljóna króna í aukna skatta á atvinnulífið. Fyrirtæki mega síst við slíkum álögum nú þegar mörg þeirra eiga fullt í fangi með að standa undir launahækkunum vegna nýgerðra kjarasamninga án þess að velta þeim út í verðlagið.

Kópavogur og Seltjarnarnes hafa lækkað skattprósentu
FA vekur athygli á því að á síðastliðnum fimm árum hefur fasteignamat atvinnuhúsnæðis á landinu hækkað um tæplega 36% að meðaltali. Á Höfuðborgarsvæðinu hefur það hækkað um 40%. Af sveitarfélögunum á Höfuðborgarsvæðinu eru það eingöngu Kópavogur og Seltjarnarnes sem hafa mætt miklum hækkunum með lækkun á álagningarprósentu sinni. Þannig hafa þessi tvö sveitarfélög haldið tekjum sínum af fasteignagjaldi fyrirtækja nokkuð stöðugum. Önnur sveitarfélög, þar með talin Reykjavíkurborg, hafa haldið álagningarprósentunni óbreyttri og fengið hundruð milljóna í tekjuaauka, alveg óháð afkomu fyrirtækjanna.

Fasteignagjald er í eðli sínu óheppileg skattheimta á fyrirtæki, sem leggst á eigið fé þeirra óháð afkomu. Hækkanir á fasteignaverði og þar með fasteignamati hafa ekkert um afkomu flestra fyrirtækja að segja, en stuðla að aukinni skattbyrði þeirra. FA skorar á sveitarfélögin að taka mið af þessu, milda höggið fyrir fyrirtækin og létta þannig á þrýstingi á verðhækkanir.

Fasteignagjöld tafla

Fasteignamat og fasteignaskattar – excelskjal

 

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning