Sveitarfélögin lækki álagningarprósentu fasteignagjalda

25.10.2019

Félag atvinnurekenda, Húseigendafélagið og Landssamband eldri borgara hafa samþykkt sameiginlega ályktun, sem var kynnt á fundi samtakanna um fasteignagjöld á Grand Hóteli Reykjavík í morgun:

Fundur samtakanna á Grand Hóteli var vel sóttur.

„Húseigendafélagið, Félag atvinnurekenda og Landssamband eldri borgara lýsa yfir megnri óánægju yfir miklum yfirvofandi og þegar orðnum álögum á fasteignir í formi fasteignaskatts, fasteignagjalda og annarra gjalda, sem lögð eru á fasteignaeigendur á grundvelli fasteignamats. Stjórnvöld þurfa að grípa til tafarlausra aðgerða til að stemma stigu við sjálfvirkum hækkunum á slíkum gjöldum og leita annarra, sanngjarnari og hóflegri leiða og aðferða en fasteignamats til grundvallar skattheimtu og álagningar gjalda. Slíkar álögur á fasteignaeigendur hafa farið sífellt og mikið hækkandi undanfarin ár og verulegar hækkarnir eru í pípunum og fyrirsjánlegar á ári komandi. Staðreyndir og tölur tala sínu máli og staðfesta það óyggjandi.

Álagning hefur vaxið stjórnlítið
Húseigendur þurfa að leggja sitt til samfélagsins eins og aðrir. En álögurnar verða að byggjast á sanngirni og réttlæti og á gegnsæjum og skynsamlegum sjónarmiðum, grunni og reglum. Álagningin hefur undanfarin ár vaxið stjórnlítið samanborið við verðlag og laun og í hrópandi ósamræmi við afkomu og hag eigenda, rekstur heimila og atvinnufyrirtækja. Hækkanir hafa verið langt umfram það sem eðlilegt er og er þá sama hvert viðmiðið er.

Sveitarfélög vísa frá sér ábyrgð á stöðugleika
Hömlulitlar hækkanir á álögum rýra hag eigenda bæði beint og óbeint. Ráðstöfunartekjur lækka og útgjöld hækka vegna afleiddra verðlagshækkana. Húsaleiga jafnt atvinnuhúsnæðis og íbúða hækkar í kjölfarið. Hækkanir af þessu tagi ógna verðlagsstöðugleika. Sveitarfélög, sem vísa á fasteignamatið og þykjast enga ábyrgð bera sjálf á hækkunum fasteignagjalda, vísa þannig frá sér ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika.

Auðvelt að nota annan gjaldstofn
Útreikningur fasteignamats er ógegnsær og uppfyllir ekki þá einföldu kröfu að skattgreiðandinn skilji hvernig skatturinn er reiknaður út.  Fasteignamat er aðallega gjaldstofn fyrir álögur, en er að öðru leyti til lítils gagns. Það kostar mikla peninga og mannafla að halda því úti. Auðvelt væri að nota annan gjaldstofn, til dæmis brunabótamat, fermetrafjölda eða aðra viðmiðun sem helst í hömlu en dregur ekki á eftir sér sjálfkrafa röð hækkana.

Sveitarfélögin lækki álagningarprósentuna
Fundarboðendur skora eindregið á sveitarfélög að lækka strax álagningarprósentu fasteignaskatts á næsta ári. Þeim er það í lófa lagið í tengslum við fjárhagsáætlanir og nægur tími er til stefnu. Vilji og skilningur er allt sem þarf. Í framhaldi af því þarf að kafa dýpra og breyta kerfinu þannig að gjaldtakan sé og verði eðlileg og hækki ekki von úr viti og villt og galið eins og hún hefur gert undanfarin ár og mun gera áfram, verði ekki í rétta tauma gripið.“

Frásögn og upptaka af fundinum, ásamt glærum frummælenda

Nýjar fréttir

Innskráning