Sveitarfélögin lækki fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði

17.09.2020

Stjórn Félags atvinnurekenda samþykkti á fundi sínum í dag eftirfarandi ályktun: 

Álagðir fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði hækkuðu um 75% á árunum 2013-2019.

„Stjórn Félags atvinnurekenda ítrekar áskorun sína til sveitarfélaganna að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði við gerð fjárhagsáætlana fyrir næsta ár. Félagið leggst eindregið gegn öllum hugmyndum um hækkun á fasteignaskatti fyrirtækja. Íþyngjandi skattbyrði vegna hækkana fasteignamats undanfarin ár gerir fyrirtækjum víða um land erfitt fyrir að ná sér á strik eftir kreppuna vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Fasteignaskattar fyrirtækja á Íslandi eru alltof háir í öllum samanburði. Þeir eru þannig þeir hæstu á Norðurlöndum og tvöfalt hærri en í Svíþjóð, reiknaðir sem hlutfall landsframleiðslu. Þetta kemur niður á samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

Fasteignaskattar eru hér á landi reiknaðir sem hlutfall af fasteignamati, sem sveiflast með eignaverði. Frá árinu 2013 og til ársins 2021 hefur fasteignamat atvinnuhúsnæðis á landinu hækkað um 84,5%. Á árunum 2013-2019 hækkaði matið um tæplega 70%, en álagðir fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði hækkuðu á sama tíma úr 15,2 milljörðum króna í 26,7 milljarða, eða um 75%, þrátt fyrir að fáein sveitarfélög hafi lækkað álagningarprósentu. Við útreikning fasteignamats fyrir 2021 og þar með skattstofnsins var tekið mið af áframhaldandi hækkun eignaverðs á síðasta ári, en efnahagsskellurinn vegna heimsfaraldursins var ekki tekinn með í reikninginn.

Stjórn FA skorar á sveitarfélögin að leggja sitt af mörkum til þess að létta undir með fyrirtækjum, sem þurfa á öllu sínu að halda til að reisa reksturinn við og skapa atvinnu eftir heimsfaraldurinn. Að viðhalda háum fasteignasköttum eða hækka þá jafnvel hægir á endurreisn atvinnulífsins.

Stjórn FA skorar jafnframt á ríkisstjórnina og sveitarfélögin að setjast að samningaborði og semja um nýtt og sanngjarnara kerfi fasteignaskatta á fyrirtæki. Núverandi kerfi, þar sem skattlagning fylgir sveiflum í eignaverði, byggist á flóknum reikniformúlum og er fyrir vikið ógegnsæ og ófyrirsjáanleg, stenst ekki kröfur stjórnarskrárinnar um skýrleika skattlagningarheimilda.“

Nýjar fréttir

Innskráning