„Endahnútur“ Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í Viðskiptablaðinu 16. maí 2019.
Félag atvinnurekenda vakti athygli á því fyrr í vikunni að drjúgur hluti hóps bændasamtaka og afurðastöðva, sem standa að auglýsingaherferð gegn innflutningi kjöts, stæði sjálfur í innflutningi á kjöti. Þetta fannst okkur skjóta svolítið skökku við.
Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að talsmenn landbúnaðarins hafi talað eins og innflutningur kjöts frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins sé stórhættulegur, standa íslenzkir bændur og afurðastöðvar fyrir rúmlega 40% innflutnings á kjöti sem flutt er inn án tolla á fyrri helmingi ársins samkvæmt tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins. Af því verður ekki dregin önnur ályktun en sú að þessir aðilar hafi í raun ekki áhyggjur af áhrifum innflutts kjöts á heilsu fólks og fénaðar, þótt þeir tali öðruvísi þegar það hentar þeim.
Forstjóri Sláturfélags Suðurlands hefur svarað gagnrýni FA og sagt að fyrirtæki í „Hópi um örugg matvæli“ flytji bara inn kjöt frá ríkjum Evrópusambandsins, sem noti sýklalyf í hófi. Þetta er einkar jákvæð yfirlýsing, því að hún felur í sér að talsmenn landbúnaðarins viðurkenna loksins að það geti bara verið allt í lagi að flytja inn kjöt frá útlöndum. Aðrir innflytjendur kjötvara, til dæmis félagsmenn í FA, leitast einmitt við að mæta kröfuhörðum markaði á Íslandi með því að flytja inn vörur frá svæðum og/eða framleiðendum, sem fylgja ströngum kröfum um heilbrigði og heilnæmi vörunnar.
Í ljósi þess að innlendum afurðastöðvum finnst í fínu lagi að flytja inn kjöt, mættu þær samt kannski endurskoða dálítið brattar yfirlýsingar á vefnum oruggurmatur.is, til dæmis þessa: „Það getur vel verið að aukinn innflutningur á erlendu kjöti hafi jákvæð efnahagsleg áhrif til skamms tíma litið. En hvað með lýðheilsuáhrif? Er það þess virði að fórna öryggi og heilsu landa okkar í framtíðinni?“
Það er auðvitað ekki skoðun neins sem flytur inn kjöt – ekki heldur innlendra afurðastöðva.