Sykurskatturinn hafði engin neysluáhrif

15.04.2015

InnflutningurSykurskatturinn svokallaði náði ekki tilgangi sínum, þ.e. að stýra neytendum í átt að heilsusamlegri matvælum, en vörukarfa neytenda hélst óbreytt eftir álagningu skattsins. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Rannsóknaseturs verslunarinnar á áhrifum sykurskatts á verði og neyslu.

Félag atvinnurekenda lagðist gegn slíkri skattlagningu við meðferð málsins á Alþingi og benti einmitt á að afar ólíklegt væri að skattlagningin hefði í för með sér neyslubreytingar. Þá gagnrýndi FA einnig harðlega skattlagningu sætuefna.

Sykurskatturinn var lagður á sætar vörur þann 1. mars 2013 og afnuminn 1. janúar 2015. Markmið skattlagningarinnar var að senda skýr skilaboð til neytenda í átt að heilsusamlegra vali á matvælum, einfalda skattumhverfið og að afla ríkinu tekna. Stóran hluta þess tíma sem sykurskatturinn var í gildi gengu framleiðendur og innflytjendur á miklar birgðir sem safnað hafði verið áður en skattheimtan hófst. Á sama tíma lækkaði heimsmarkaðsverð sykurs töluvert og gengi krónunnar styrktist.

Í niðurstöðunum kemur fram að ekki sé að sjá að sykurskatturinn hafi haft veruleg áhrif á neyslu þann stutta tíma sem skattheimtan stóð. Lítil augljós áhrif hafi verið á verðlag þeirra tegunda morgunkorns, kex og gosdrykkja sem til skoðunar voru en verð mjólkurvara hækkaði strax. Þá hafi áhrif á verð strásykurs komið seint fram. Auk þess hafi ekki verið hægt að greina áhrif sykurskattsins á magnþróun, þ.e. hversu mikið var keypt,  neins þeirra vöruflokka sem rannsóknin tók til.

Skatturinn var lagður á hvort tveggja sykur og sætuefni og var skattandlagið þannig í raun sætt bragð. Sætuefnið aspartame er tvöhundruð sinnum sætara per gr. en sykur og var skattur á það efni því tvöhundruð sinnum hærri per gr. en skattur sem lagður var á sykur. Af þessu leiddi að staðkvæmar vörur, þ.e. vörur sem geta komið í stað annarrar vöru, féllu gjarnan undir sykurskattinn. Neytendur höfðu þar af leiðandi nánast enga möguleika á því að forðast skattheimtuna með því að breyta vali sínu á því hvað skyldi kaupa.

Það markmið skattlagningarinnar að afla ríkinu tekna náðist hins vegar og gott betur en skattlagningin skilaði milljarði í ríkiskassann, 200 milljónum meira en lagt var upp með. Skýrist það af hinum takmörkuðu neysluáhrifum.

Við kynningu á niðurstöðum rannsóknarinnar bentu skýrsluhöfundar á að af niðurstöðunum mætti sjá að hækkun á verði sætrar vöru hefði í sumum tilvikum haft í för með sér hækkun á ósætri vöru. Þetta sjáist best af verðhækkun á skyri, sætt skyr hækkaði um 9% í verði en ósætt skyr um heil 17,8%. Í skýrslunni er sérstök athygli vakin á því að af öllum þeim vörum sem skoðaðar voru í rannsókninni voru mjólkurvörur þær einu sem hækkuðu samstundis í verði og telja skýrsluhöfundar að það megi líklega heimfæra á litla samkeppni á mjólkurvörumarkaði.

Nýjar fréttir

21. desember 2024
21. desember 2024

Innskráning