Tækifæri í stafrænu byltingunni í Indlandi

16.07.2015

IMG_4612Íslensk-indverska viðskiptaráðið, ásamt FA og utanríkisráðuneytinu, hélt í morgun vel sóttan fund um tækifæri í viðskiptum við Indland. Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Nýju Delí, benti þar meðal annars á tækifærin sem lægju í stafrænu byltingunni í Indlandi, en hundruð milljóna Indverja nota internetið og farsíma daglega.

Bala Kamallakharan, formaður ÍIV, bauð gesti velkomna. Hann sagði vaxandi áhuga á tengslum Íslands og Indlands og mikilvæg tækifæri fyrir viðskiptin milli landanna fælust í því að indverskt sendiráð væri í Reykjavík og íslenskt í Nýju Delí.

Högni Kristjánsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, fjallaði um magn og tegund viðskipta Íslands og Indlands og markmið stjórnvalda varðandi tengsl landanna. Samkvæmt tölum sem Högni sýndi hefur orðið verulegur samdráttur í viðskiptum Íslands og Indlands síðustu ár, en ástæðurnar eru ekki fyllilega ljósar. Hann sagði markmið íslenskra stjórnvalda að örva áhuga á viðskiptum við Indland næstu misserin. Áfram væri unnið að fríverslunarviðræðum Íslands og Indlands. Fyrir tveimur árum hefðu ríkin verið hársbreidd frá því að ná samningi og vonast væri til að viðræðurnar bæru árangur á næstu árum.

Byggingastarfsemi, orkuvinnsla, kvikmyndir
IMG_4610Þórir Ibsen sendiherra ræddi um tækifærin í viðskiptum við Indland. Þar væri spáð miklum og stöðugum hagvexti næstu árin. Þjóðin stefndi í að verða sú yngsta í heimi, með 29 ára meðalaldur árið 2020. Í því lægju meðal annars mikil tækifæri fyrir fyrirtæki í þróun stafrænnar tækni, appa og skyldrar tækni, enda væru 243 milljónir Indverja nettengdar og meira en 90 milljónir virkar á samfélagsmiðlum í gegnum farsíma, svo dæmi séu tekin.

Þórir benti á ýmsa geira í indversku atvinnulífi sem væru áhugaverðir fyrir Íslendinga. Þar á meðal væru byggingageirinn, símaþjónusta, netverslun, vinnsla endurnýjanlegrar orku, heilsugeirinn, lyfjageirinn og kvikmyndagerð.

Sendiherrann fór yfir atriði sem skiptu máli þegar fyrirtæki leituðu fyrir sér um viðskipti í Indlandi. Þar á meðal væri að hafa áreiðanlega innlenda viðskiptafélaga, að eiga aðild að fyrirtækjasamtökum á borð við Indversk-íslenska viðskiptaráðið og nýta sér tengsl við stjórnvöld og utanríkisþjónustuna. Þórir sagði sendiráðið í Nýju Delí boðið og búið að aðstoða íslensk fyrirtæki sem hefðu áhuga á Indlandsviðskiptum.

Glærur Þóris

Glærur Högna

Umfjöllun um fundinn á Vísi

Upplýsingar um Íslensk-indverska viðskiptaráðið

Nýjar fréttir

13. júní 2024

Innskráning