Áramótagrein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Innherja á Vísi 28. desember 2022
Árið færði íslenzku og alþjóðlegu viðskiptalífi nýjar áskoranir í formi heimsfaraldurs og stríðs. Hvort tveggja raskaði alþjóðlegum aðfangakeðjum, með þeim afleiðingum meðal annars að verðbólga er meiri víðast hvar á Vesturlöndum en um langt árabil.
Alþjóðlegur verðsamanburður bendir til að íslenzk verzlun hafi staðið sig vel í stykkinu að draga úr áhrifum verðhækkana á alþjóðlegum mörkuðum eins og kostur er, alltént eru t.d. matarverðshækkanir á árinu mun minni á Íslandi en í flestum öðrum Evrópuríkjum. Miklar hækkanir á húsnæðisverði hafa hins vegar komið illa við buddu hins almenna launþega.
Tækifæri í tollalækkunum
Undir lok ársins náðust skynsamlegir kjarasamningar á stórum hluta almenna vinnumarkaðarins sem vekja vonir um að hægt verði að ná tökum á verðbólgu og vaxtastigi á nýju ári. Í tengslum við samningana kynntu stjórnvöld aðgerðir í húsnæðismálum, sem ættu að geta hjálpað til. Þau misstu hins vegar af augljósu tækifæri til að stuðla að lækkun matvælaverðs með því að lækka eða fella niður tolla.
Félag atvinnurekenda hefur allt árið bent stjórnvöldum reglulega á leiðir til að lækka verð á neytendavörum með því að fella niður tolla. Ekkert hefur verið gert með þessar tillögur, sem bendir til að ríkisstjórninni sé meira í mun að verja sérhagsmuni í landbúnaði en að draga úr verðbólgu.
FA hefur sömuleiðis bent á það hvernig uppboð á tollkvótum, tollfrjálsum heimildum til að flytja inn takmarkað magn af búvörum samkvæmt alþjóðasamningum, hafa stuðlað að því að hækka á þeim verðið. Þannig er ávinningur tollfrelsisins hafður af neytendum og bætt í verðbólguna. Innlendir framleiðendur búvara eru orðnir sérfræðingar í að spila á þetta kerfi með því að bjóða sjálfir hátt í tollkvóta, hækka þannig verðið á vörunum og koma í veg fyrir alþjóðlega samkeppni við eigin framleiðslu. FA hefur vakið athygli Samkeppniseftirlitsins á þessum viðskiptaháttum og vonast til að það skili einhverjum árangri, því að ítrekuð erindi til stjórnarráðsins skila engu.
Þegar FA gerði kjarasamninga við viðsemjendur sína innan Alþýðusambandsins var að sjálfsögðu auðsótt mál að verða við kröfum þeirra um sameiginlega bókun, þar sem skorað er á stjórnvöld að lækka tolla í þágu almennings á Íslandi. Tollalækkun er ein skilvirkasta leiðin til að bæta kjör neytenda og standa vörð um kaupmátt þeirra kjarabóta sem samið var um í kjarasamningunum. Sameiginlegur erindrekstur FA og stéttarfélaga í því efni er væntanlega eitt af verkefnum nýs árs, enda eru tollalækkanir sameiginlegt hagsmunamál atvinnurekenda og launþega.
Áhuga- og getuleysi í pólitíkinni
FA hefur látið til sín taka í fleiri samkeppnismálum, t.d. skorað á stjórnvöld að taka á samkeppnisháttum ríkisrisanna Isavia og Íslandspósts og hvatt til þess að stór og afgerandi skref yrðu tekin í átt til frjálsræðis á áfengismarkaði, bæði hvað varðar sölu, markaðssetningu og auglýsingar á áfengum drykkjum. Það er reyndar orðið verulegt áhyggjuefni hversu mjög skortir á áhuga og getu stjórnmálamanna til að taka á opinberum fyrirtækjum sem eru orðin ríki í ríkinu og kerfum sem eru löngu úr sér gengin og vinna gegn heilbrigðri skynsemi eins og allt bixið í kringum íslenzkan áfengismarkað. Á þessum vettvangi ganga tækifærin úr greipum stjórnvalda á færibandi.
Mistök á opinbera markaðnum
Á árinu kom sömuleiðis æ betur í ljós að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, gerðu risavaxin mistök þegar samið var við opinbera starfsmenn í síðustu samningalotu og þeim samningum hrint í framkvæmd. Stytting vinnutímans hjá opinberum starfsmönnum er langtum meiri en hjá fólki á almennum vinnumarkaði en fyrirheit um að í staðinn myndi nást sparnaður, hagræðing og betri þjónusta hafa ekki gengið eftir nema síður sé.
Um leið og opinberum starfsmönnum fjölgar nánast stjórnlaust fá þeir kjarabætur sem eru mun ríflegri en á almenna markaðnum. Fyrirtæki verða æ oftar fyrir því að geta ekki keppt við hið opinbera varðandi laun eða starfsaðstæður, sérstaklega þegar um sérfræðinga og millistjórnendur er að ræða. Þetta er öfugþróun, sem verður að sporna gegn á nýju ári þegar hið opinbera sezt á ný að samningaborði með stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Ekkert hagkerfi getur staðið undir því að hið opinbera sé leiðandi í launa- og kjaraþróun. Það er verðmætasköpun einkageirans, sem stendur undir opinbera rekstrinum, og þar verður að leggja línurnar.
Bólgið bákn þarf háa skatta
Það er kannski ekki að furða að á sama tíma og hið opinbera bákn bólgnar nánast stjórnlaust út sé torvelt að sannfæra stjórnmálamenn um gildi þess að lækka skatta á fólki og fyrirtækjum. Enn er tryggingagjaldið til dæmis heilu prósentustigi hærra en fyrir bankahrun, þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnmálamanna um að lækka það á ný. FA hefur látið til sín taka í baráttunni gegn síhækkandi fasteignasköttum á atvinnuhúsnæði – sem bar þann árangur að t.d. sveitarfélög á borð við Kópavog, Garðabæ, Seltjarnarnes, Mosfellsbæ og Reykjanesbæ lækkuðu álagningarprósentu. Á sama tíma stingur aðgerðaleysi borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík, sem innheimtir um helming fasteignaskatta á landinu, í augu. Samkeppnisstaða borgarinnar gagnvart nágrannasveitarfélögunum versnar hratt.
FA tók fleiri kíkótíska slagi á árinu í skattamálum, eins og til dæmis að reyna að fá hæstu áfengisskatta í hinum vestræna heimi lækkaða. Það tókst ekki; þvert á móti voru þeir hækkaðir meira en dæmi eru um á síðari árum. Það dapurlega er að íslenzkir neytendur láta slíkt yfir sig ganga nokkurn veginn orða- og aðgerðalaust. Ef tillaga væri gerð um svipaða áfengisskatta t.d. í Frakklandi eða á Ítalíu væri það örugg ávísun á fjöldamótmæli. Kannski væri gott að á nýju ári spyrði fjármálaráðherrann sig eftirfarandi spurninga: Myndu neytendur í einhverju öðru Evrópulandi sætta sig við skattpíningu eins og þá sem ég er að fara að leggja til? Og hvernig fer hækkun neyzluskatta saman við markmið um lægri verðbólgu?
Tækifærin koma aftur
Já, mörg tækifæri til að gera betur glötuðust á árinu. En á nýju ári koma ný tækifæri og það má alltaf strengja þess heit að nýta þau betur.