Það er nógu gott handa ykkur

05.10.2017

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Morgunblaðinu 5. október 2017. 

Framleiðsla nautgripakjöts á Íslandi hefur aðeins annað hluta innanlandseftirspurnar undanfarin ár, það er óumdeild staðreynd. Um 20-30% innanlandsneyzlu hafa verið flutt inn. Minna hefur verið talað um þá staðreynd að innlend framleiðsla annar alls ekki eftirspurn eftir hágæða nautakjöti.

Í athyglisverðri umfjöllun í Morgunblaðinu 12. september síðastliðinn kemur fram að verið sé að taka upp nýtt, evrópskt kjötmatskerfi, kallað EUROP. Haft er eftir Einari Kára Magnússyni, kjötmatsformanni hjá Matvælastofnun, að íslenskir nautgripir hafi ekki uppfyllt kröfur efstu flokkanna í kjötmatskerfinu. Til að byrja með verði því aðeins notaðir 11-13 flokkar af 15 í kjötmatskerfinu hér á landi. „Það er vegna þess að við höfum ekki gripi á pari við bestu holdanautgripi í Evrópu,“ segir Einar Kári.

Costco telur vanta upp á gæðin
Í seinustu viku sagði Steve Pappas, framkvæmdastjóri Costco í Evrópu, að íslenzkt nautakjöt uppfyllti ekki gæðakröfur verzlanakeðjunnar. „Við sjáum gæði í svínakjöti, kjúklingi og fiski en það sama gildir ekki í nautakjöti. Við erum að vinna með bændum til að bæta gæði þess og framleiðslu,“ sagði Pappas á fjármálaþingi Íslandsbanka.

Þetta kemur þeim ekki á óvart, sem hafa staðið í innflutningi nautakjöts á undanförnum árum. Eftirspurn frá verzlunum og ört vaxandi veitingahúsamarkaði eftir miklum og jöfnum gæðum í nautakjöti fer hraðvaxandi. Gífurleg fjölgun ferðamanna ýtir undir eftirspurn eftir gæðanautasteikum, sem íslenzkir framleiðendur geta engan veginn annað. Oft er því eina leiðin til að svara þessari eftirspurn að flytja kjötið inn. Í áðurnefndri Morgunblaðsgrein viðurkenndi Axel Kárason, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda (LK), að vandamál við að ná stöðugleika í gerð íslenzka nautakjötsins yllu t.d. veitingahúsum vandræðum.

Bændur átta sig – kerfið kveikir ekki
Bændur eru augljóslega byrjaðir að átta sig á að þeir verða að bjóða betri vöru til að þjónusta æ kröfuharðari markað. Í því skyni verða t.d. fluttir inn fósturvísar úr norskum Aberdeen Angus-gripum. Breytingar á innanlandsframleiðslu munu hins vegar taka langan tíma. Þannig áformar LK að eftir tíu ár verði sala kjöts af holdagripum um 10-15% af innanlandssölu.

Kerfið, sem byggt hefur verið upp í kringum innflutning búvara, tekur hins vegar ekkert mið af þessum raunveruleika. Í augum kerfisins – sem löngum hefur verið hannað til að verja innlendan landbúnað fyrir erlendri samkeppni – er enginn munur á nautakjöti í lágum gæðaflokkum og úrvalskjöti.

Gæðakjötið vantar, samt lækka tollarnir ekki
Landbúnaðarráðherra ber skylda til þess samkvæmt lögum að lækka tolla ef skortur er á vöru innanlands. Undanfarin ár hafa því verið opnaðir svokallaðir skortkvótar fyrir nautakjöt þegar innanlandsframleiðsla annar ekki eftirspurn, það eru tímabundnar heimildir til að flytja inn kjöt á lægri tollum en ella. Kvótarnir eru alls ekki tollfrjálsir; af kílói af nautalundum þarf t.d. að greiða tæplega 660 króna magntoll og þannig er innlend framleiðsla áfram varin fyrir verðsamkeppni. Þrátt fyrir viðvarandi skort á kjöti í efstu gæðaflokkum allan ársins hring hafa skortkvótarnir eingöngu verið í gildi hluta úr ári, eins og sjá má í meðfylgjandi töflu.

Þetta þýðir að innflytjendur hafa stóran hluta úr ári ýmist þurft að flytja kjötið inn á fullum tollum – sem gerir vöruna ekki samkeppnishæfa í verði – eða reiða sig á tollkvóta samkvæmt samningum við Alþjóðaviðskiptastofnunina og Evrópusambandið. Þeim innflutningsheimildum er úthlutað með uppboði og útboðsgjaldið, sem innflutningsfyrirtæki greiða fyrir þær, fer sífellt hækkandi. Seinni hluta þessa árs eru þannig greiddar að meðaltali 704 krónur á kíló fyrir „tollfrjálsan“ innflutningskvóta fyrir nautakjöt frá ríkjum Evrópusambandsins.

Hagsmunaaðilar ráða ákvörðunum stjórnvalda
Eins og áður segir, er kerfinu sama um gæði nautakjötsins sem er til í landinu. Fyrir stuttu fóru innflutningsfyrirtæki fram á að opnaður yrði skortkvóti á nautalundum vegna vöntunar á gæðakjöti. Ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara, sem gerir tillögur til ráðherra um hvort opna eigi skortkvóta, sendi fyrirspurn á stærstu innlendu framleiðendur og dreifingaraðila (sem hafa ríka hagsmuni af að erlend samkeppni sé sem minnst) og fékk þau svör að nóg væri til af nautakjöti. Nefndin synjaði því beiðni innflytjendanna á fundi sínum 26. september. Þetta er augljóslega fráleitt fyrirkomulag, sem nauðsynlegt er að breyta.

Þótt jafnvel nautgripabændur sjálfir viðurkenni að gæðakjötið sé ekki til, eru skilaboð kerfisins skýr: Það er til íslenzkt nautakjöt. Það er nógu gott handa ykkur.

Nýjar fréttir

Innskráning