Þarf að horfa til annarra þátta en launahækkana

06.09.2017

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir í viðtali við RÚV að ekki komi til greina að opinberi markaðurinn leiði launahækkanir líkt og í síðustu kjarasamningum. Líta þurfi til annarra þátta en launahækkana við gerð næstu kjarasamninga, til dæmis aukinnar framleiðni sem geti skilað sér í styttri vinnuviku eða rýmra orlofi.

Rætt var við Ólaf í lok morgunverðarfundar FA þar sem sem Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, fór yfir ástand og horfur í efnahagsmálum. Á meðal þess sem fram kom í máli Þórarins var að fyrirtækin gætu ekki staðið undir annarri launahækkunarlotu eins og í síðustu kjarasamningum.

„Það er engin leið að láta opinbera markaðinn aftur leiða launahækkanir eins og gerðist í síðustu kjarasamningum,“ segir Ólafur í samtali við fréttastofu RÚV. „Þessi kjarasamningalota á frekar að snúast um þá hluti eins og til dæmis aukna framleiðni sem getur leitt af sér styttingu vinnuviku eða rýmra orlof eða eitthvað slíkt. Það er einfaldlega engin innistæða hjá útflutningsgreinunum í landinu fyrir miklum launahækkunum.“

Ólafur bendir á að kaupmáttur hérlendis hafi aukist mikið á undanförnum þremur árum, sem allir launþegar hafi fundið fyrir. „Við verðum að varðveita þann árangur og ekki stefna honum í voða,“ segir hann. „En eins og ég segi, ég held að menn eigi þá frekar að tala um annars konar lífsgæði heldur en endilega launahækkanir í næstu samningum.“

Umfjöllun í kvöldfréttum RÚV

Umfjöllun í 10-fréttum RÚV (hefst á 10.05)

Umfjöllun á ruv.is

Nýjar fréttir

Innskráning