Þegar stjórnmálamenn grafa undan fyrirtækjum

22.07.2021

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 21. júlí 2021.

Nokkur dæmi um niðurgreidd námskeið endurmenntunardeilda háskólanna, í beinni samkeppni við sambærileg námskeið hjá félagsmönnum FA. Smelltu á myndina til að stækka hana.

Stjórnmálamenn taka stundum ákvarðanir, sem eru sennilega fallega hugsaðar og kunna við fyrstu sýn að vera í þágu almennings, en reynast síðan valda fyrirtækjum í rekstri miklum skaða og ógna getu þeirra til að skapa verðmæti og störf. Tökum tvö dæmi, sem Félag atvinnurekenda hefur látið til sín taka undanfarin misseri.

Þegar frumvarp til breytinga á póstlögum var til meðferðar á Alþingi í árslok 2019 fékk einhver þingmaður þá snilldarhugmynd að skylda veitanda alþjónustu til hafa sama verð fyrir pakkaflutninga um allt land. Þetta var sagt byggðaaðgerð og breytingartillaga meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar um eitt verð um allt land var samþykkt.

Það sem gerðist næst var að alþjónustuveitandinn, Íslandspóstur, lækkaði verðskrá sína fyrir pakkaflutninga út um land niður í verðið sem gildir fyrir pakkasendingar innan höfuðborgarsvæðisins. Þannig var verð, sem þegar var líkast til undir kostnaði við að veita þjónustuna, komið tugi prósenta undir verð einkarekinna fyrirtækja sem annast vöru- og pakkasendingar – og þau eru mörg og starfa víða um land. Nýja verðskráin var augljóst brot á öðrum ákvæðum póstlaganna, um að verð fyrir alþjónustu verði að taka mið af raunverulegum kostnaði við að veita þjónustuna og undirverðlagning sé þannig í raun bönnuð. Pósturinn heimtaði niðurgreiðslur úr ríkissjóði til að standa undir undirverðlagningunni og af einhverjum ástæðum sem greinarhöfundur hefur enn ekki skilið, stóðu fjármálaráðuneytið, samgönguráðuneytið og Póst- og fjarskiptastofnun með ríkisfyrirtækinu i lögbrotunum og niðurgreiðslurnar fékk það.

Á pakkaflutningamarkaðnum urðu afleiðingarnar að ógerningur var að keppa við verð ríkisfyrirtækisins og fyrirtæki sem mörg hver skapa atvinnu í héraði töpuðu viðskiptum til Póstsins. Þetta reyndist einhver misheppnaðasta byggðaaðgerð sögunnar, enda var með undirverðlagningunni grafið undan rekstri fyrirtækja á landsbyggðinni. Eftir 18 mánaða baráttu FA og fleiri hagsmunasamtaka fyrir því að annað hvort yrði lögum breytt eða farið að gildandi lögum, flutti meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis (svo lítið bar á) nýja breytingartillögu um að afnema eitt verð um allt land í pakkaflutningum.

Annað dæmi er af sumarnámi í framhalds- og háskólum, sem menntamálaráðuneytið greip til vegna lélegs atvinnuástands af völdum heimsfaraldursins. Það verkefni er að flestu leyti góðra gjalda vert. Það er alls ekki óeðlilegt að gera atvinnuleitendum kleift að fara í nám eða námsmönnum, sem ekki fá sumarvinnu, kleift að bæta við sig einingum yfir sumarið. FA gerði hins vegar, fyrir hönd aðildarfyrirtækja sinna á fræðslumarkaði, alvarlegar athugasemdir við þann hluta ríkisstyrkjanna sem rann til endurmenntunardeilda háskólanna. Þær starfa að mörgu leyti í beinni samkeppni við einkarekin fræðslufyrirtæki.

Bæði í fyrrasumar og nú í sumar bjóða endurmenntunardeildirnar upp á alls konar námskeið, sem eru alls ekki sérstaklega ætluð atvinnuleitendum eða háskólanemum, heldur þvert á móti öllum almenningi. Þessi námskeið, sem áður kostuðu tugi þúsunda, eru í sumar í boði á 3.000 krónur. Þetta eru sambærileg námskeið og einkarekin fræðslufyrirtæki bjóða, t.d. á sviði tölvufærni, viðskipta, mannlegra samskipta o.s.frv.

Aftur er það svo að við þetta niðurgreidda verð ríkisháskóla eða ríkisstyrktra háskóla geta einkarekin fræðslufyrirtæki ekki keppt og hafa misst mikil viðskipti, sem kemur til viðbótar við tjón þeirra vegna heimsfaraldursins. Það er einfaldlega staðreynd og gildir þá einu að Eftirlitsstofnun EFTA hafi komizt að þeirri niðurstöðu fyrr í mánuðinum að ríkisstyrkirnir hafi rúmazt innan ákvæða EES-samningsins. Ákvarðanir menntamálaráðherrans ollu einkareknum fyrirtækjum miklu tjóni, sem hefði mátt forðast.

Nú eru kosningar framundan og má gera ráð fyrir að menntamálaráðherrann, fjármálaráðherrann, samgönguráðherrann og aðrir þingmenn hafi á vörum falleg orð um mikilvægi þess að búa fyrirtækjum hagstætt rekstrarumhverfi. Það væri nú ekki úr vegi að kjósendur spyrðu þetta fólk af hverju það lét þá klúður eins og það sem lýst er hér að framan viðgangast á sinni vakt.

Nýjar fréttir

Innskráning