Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Kjarnanum 3. febrúar 2020.
Haraldur Benediktsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins bar heila atvinnugrein þungum sökum í Facebook-pistli fyrir helgi, sagði blómainnflytjendur hafa ástundað að „blekkja og stela“ og gert sig seka um „misnotkun og smygl“ og „áralanga brotastarfsemi“. Þingmaðurinn nefndi engin dæmi stóryrðum sínum til stuðnings. Félag atvinnurekenda skoraði á hann að koma gögnum um lögbrot til löggæzluyfirvalda ef hann hefði þau undir höndum, en biðjast afsökunar á því að saka fjölda fyrirtækja um slíkt, án nokkurra sannana. Félagið benti jafnframt á að jafnvel þótt í einhverjum tilvikum hafi verið pottur brotinn við innflutning blóma – sem ekki er hægt að útiloka – breytti það engu um þá vinnu við endurskoðun á tollaumhverfi greinarinnar, sem FA hefur beitt sér fyrir að stjórnvöld færu í.
Fyrirtæki í blómaverzlun eru almennt sammála um að tollar á blómum séu alltof háir og víðtækir, skekki samkeppni og bitni á neytendum. Það eru raunar þekkt áhrif tolla í milliríkjaviðskiptum. Þetta hafa fyrirtækin viljað að hið opinbera tæki til endurskoðunar. Hið „málefnalega“ svar þingmanns Sjálfstæðisflokksins við þessum umleitunum er efnislega: Blómainnflytjendur eru glæpamenn og það á ekki að tala við glæpamenn.
Aðallega reykur
Nú hefur Haraldur skrifað grein hér í Kjarnann máli sínu til stuðnings. Hann dregur nú heldur í land, enda getur hann ekki nefnt eitt dæmi um lögbrot, en dregur vafasamar ályktanir af því að tollayfirvöld hafi bætt eftirlit með innflutningi á plöntum og að eftirspurn eftir tollkvóta fyrir blóm hafi þá vaxið! Það er einföld skýring á aukinni eftirspurn eftir tollkvóta: Markaður fyrir blóm fer stækkandi og eftirspurn neytenda er vaxandi. Þeim mun mikilvægara er að gera þær breytingar í tollamálum sem FA hefur beitt sér fyrir, með stuðningi fyrirtækja sem í sameiningu standa fyrir meirihluta blómaverzlunar í landinu.
Segja má að þingmaðurinn dragi gæði sönnunarfærslunnar að baki ásökunum sínum saman í einni setningu í grein sinni: „þar sem er reykur, er oft eldur.“
Haraldur getur þannig ekki fært neinar sönnur á mál sitt, en honum dettur auðvitað ekki í hug að biðja blómainnflytjendur afsökunar, heldur tekur þann kostinn að reyna að gera afstöðu Félags atvinnurekenda til annarra og allsendis óskyldra mála tortryggilega. Það er þá rétt að eyða nokkrum orðum á þá smjörklípu.
Spara norrænu útboðin peninga?
Annars vegar vill hann meina að afstaða FA til þátttöku ríkisins í samnorrænum útboðum á lyfjum gangi gegn áherzlu félagsins á viðskiptafrelsi. Það er alrangt, eins og lesendur geta kynnt sér í Kjarnagrein þar sem undirritaður fjallaði um áhrif þess á innlend þjónustufyrirtæki ef ríkið setti nokkur veltuhæstu lyf spítalanna í útboð.
Kjarni málsins er eftirfarandi, sem sagði í greininni: „Ef stefna heilbrigðisráðherra og Landspítalans er sú að setja veltumestu lyfin í norrænt útboð til að ná fram sparnaði, er um leið verið að kippa grundvellinum undan rekstri þjónustufyrirtækjanna. Nú er ekkert sem segir að einhver tiltekinn rekstur eigi rétt á sér um aldur og ævi. En stjórnvöld þurfa engu að síður að hafa einhverja hugmynd um hvernig því hlutverki innan heilbrigðiskerfisins, sem þjónustufyrirtækin þjóna, verði sinnt í framtíðinni ef þeirra nýtur ekki við.“
Kallað var eftir svörum heilbrigðisráðherra við ýmsum spurningum sem hafa vaknað vegna norrænu útboðanna. Þau hafa ekki borizt og kannski getur Haraldur Benediktsson, sem nefndarmaður í fjárlaganefnd, aðstoðað okkur við að ganga á eftir þeim vegna þess að hæpið er að skattgreiðendur græði á endanum á þeirri stefnu sem heilbrigðisráðherra hefur markað.
Gegn frelsinu með meira frelsi?
Hitt málið sem Haraldur tiltekur er um frjálsa smásölu áfengis. „Þar lögðust heildsalar af miklum þunga gegn frelsinu. Hvers vegna? Jú þeir óttuðust að með auknu frelsi gæti ávinningur af innflutningi minnkað,“ segir hann.
Aftur veður þingmaðurinn reyk. Félag atvinnurekenda hefur þvert á móti viljað ganga lengra í frelsisátt en gert hefur verið ráð fyrir í frumvörpum um smásölu áfengis; afnema auglýsingabann samfara breytingu á smásölunni, falla frá því að setja sérstakar hömlur á sölu sterks áfengis og gera innheimtu áfengisgjalds minna íþyngjandi. Afstöðu félagsins má til dæmis kynna sér í umsögn þess um síðasta frumvarp sem lagt var fram um breytingar á smásölu áfengis.
Hvernig væri að ræða málefnin?
En svo aftur sé vikið að kjarna málsins, sem upphaflega varð Haraldi tilefni til stóryrða og innantómra ásakana um lögbrot: Félag atvinnurekenda hefur lagt áherzlu á það í viðræðum sínum við stjórnvöld að hægt væri að breyta fyrirkomulagi tolla á blómum, verzluninni og neytendum til hagsbóta, og engu að síður viðhalda vernd fyrir innlenda framleiðendur. Tollar leggjast nefnilega á alls konar blóm, sem alls ekki eru framleidd á Íslandi, auk þess sem innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn.
Kannski væri nær að Haraldur og aðrir forsvarsmenn landbúnaðar tækju málefnalega umræðu um hvernig hægt væri að fara bil beggja í þessu efni, í stað þess að þyrla upp ógurlegu moldviðri með innistæðulausum fullyrðingum um smygl, þjófnað og aðra brotastarfsemi.