Þórdís Kolbrún: Vill gjarnan samkeppnismat á fleiri atvinnugreinum

12.02.2021
Þórdís Kolbrún á streymisfundi FA.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra samkeppnismála, sagði á opnum streymisfundi FA í gær að hún vildi stefna að því að gera samkeppnismat á fleiri sviðum atvinnulífsins en byggingariðnaði og ferðaþjónustu, en OECD lauk slíku mati á síðasta ári.

Ráðherrann sagði í erindi sínu að niðurstaðan úr samkeppnismatinu hefði verið sláandi. „Ísland er með eina þyngstu reglubyrði allra landa OECD þegar kemur að veitingu þeirrar þjónustu sem skoðuð var í skýrslunni. Við vorum líklega ekki að taka út þá þætti þar sem hindranir og óþarfa reglubyrði er sem mest, þannig að við getum ímyndað okkur að þetta verði tekið út á fleiri sviðum og ég myndi gjarnan vilja að það yrði gert. En það þarf líka að vinna úr tillögunum sem koma, við getum ekki bara safnað þeim upp.“

Væri ábyrgðarleysi að vinna ekki úr tillögum OECD
Þórdís Kolbrún benti á að Ísland skoraði neðarlega, mjög neðarlega eða jafnvel lægst af öllum löndum OECD hvað varðaði reglubyrðina. „Lægsta einkunn okkar lýtur að miklum fjölda lögverndaðra iðngreina og einkaréttaraðila með tiltekin réttindi að ákveðnum störfum. Þetta er sláandi niðurstaða sem við verðum að bregðast við. Óþarfa regluverk hamlar verðmætasköpun, dregur úr samkeppni og skerðir einfaldlega lífskjör. Það er nú ekki mikið flóknara en það. Á þessum tveimur mörkuðum er áætlað að tjón þjóðarbúsins nemi einu prósenti af landsframleiðslu, eða um þrjátíu milljörðum króna á ári. Þannig að það væri mikið ábyrgðarleysi að ganga ekki í það verk að taka þessar tillögur og finna okkar bestu leið til að hrinda þeim í framkvæmd og halda svo áfram á sömu leið og taka út fleiri svið.“

Hagsmunahópar munu gera athugasemdir við allar breytingar
Þórdís Kolbrún segir tillögunum fylgt markvisst eftir, m.a. hvað varðar lögverndun starfa og einföldun regluverks ferðaþjónustunnar. Frumvörp verði lögð fram á vorþinginu um þau mál. „Eðlilega munu margir sem eiga hagsmuna að gæta gera athugasemdir við allar breytingar. Við skulum ekki hunsa slík sjónarmið, en á sama tíma verðum við að hafa hugfast að úrbótatillögur OECD byggja á nákvæmum samanburði við lönd sem við viljum almennt bera okkur saman við. Þau búa við mun minna reglufargan en við og reynslan sýnir að við getum bætt lífskjör með því að ryðja óþarfa hindrunum úr vegi,“ sagði ráðherra.

Ania Thiemann, yfirmaður samkeppnismats hjá OECD, sem stýrði gerð skýrslunnar, var jafnframt meðal ræðumanna á fundinum og fór yfir ýmsar af niðurstöðum OECD.

Félag atvinnurekenda sendi Kristjáni Þór Júlíussyni, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, erindi eftir að skýrsla OECD kom út, og hvatti hann til að beita sér fyrir því að næst yrði gert samkeppnismat á regluverki landbúnaðar og sjávarútvegs á Íslandi. Ráðherrann hefur ekki svarað erindinu þrátt fyrir ítrekanir.

Upptaka af fundinum á Facebook-síðu FA

Nýjar fréttir

Innskráning