Þörf á endurskoðun stuðningsaðgerða við fyrirtækin

12.08.2020

Félag atvinnurekenda telur nauðsynlegt að stjórnvöld endurskoði stuðningsaðgerðir við fyrirtæki vegna heimsfaraldurs COVID-19 veirunnar, annars vegar með hliðsjón af því hvaða úrræði hafa nýst vel og hver ekki og hins vegar með tilliti til þess að faraldurinn virðist munu vara lengur en gert var ráð fyrir síðastliðið vor. Framkvæmdastjóri FA ræddi málið í viðtali á Stöð 2 í gærkvöldi, sem sjá má í spilaranum hér að neðan.

Greint var frá því í fréttum RÚV í fyrrakvöld að ekkert brúarlán hefði enn verið veitt og mun færri lokunarstyrkir en búist var við. Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA sagði á Stöð 2 að brúarlánin væru í fyrsta lagi með of flóknum skilyrðum og fyrirtækin treg til að taka á sig þær kvaðir sem þeim fylgja. „Þar að auki eru þau bara að hluta til með ríkisábyrgð og okkur sýnist að bankarnir séu bara einfaldlega ekki tilbúnir að taka á sig áhættu sem getur fylgt veitingu brúarlánanna,“ sagði Ólafur.

Ýmsar aðrar stuðningsaðgerðir stjórnvalda hafa reynst vel að mati FA, ekki síst hlutabótaleiðin, stuðningslán, stuðningur við launagreiðslur á uppsagnarfresti og stuðningur við launagreiðslur til starfsmanna í sóttkví, en síðastnefnda aðgerðin stuðlar að því að fyrirtækin og starfsmenn þeirra taki fullan þátt í að stuðla að nauðsynlegum sóttvörnum.

Ólafur var spurður út í lokunarstyrki, en aðeins um fjórðungur þeirra fyrirtækja, sem talið var að myndu sækja um styrkina, hafa sótt um slíkan styrk og miklum fjármunum, eða um tveimur milljörðum króna, er því óráðstafað. Ólafur sagði að það hefði komið félaginu mjög á óvart að fyrirtæki, sem það teldi uppfylla öll skilyrði fyrir að fá lokunarstyrki, hefðu fengið synjun um styrk hjá Skattinum.  „Við teljum að það sé of þröng túlkun á lögunum, en það getur þá líka verið til í dæminu að það þurfi að skýra löggjöfina þannig að þetta sé á hreinu.“

FA hefur kallað eftir því að stjórnvöld kunngeri hið fyrsta hvort og þá hvernig eigi að koma til móts við fyrirtæki sem geti t.d. neyðst til að gera hlé á starfsemi sinni nú í þessari bylgju faraldursins og að réttarstaðan sé þá skýr.

Að mati FA þarf að fara yfir þær stuðningsaðgerðir við fyrirtækin, sem ákveðnar voru í vor, og meta hverjar hafa reynst vel og hverjar hafa ekki nýst fyrirtækjunum, þar með talin brúarlánin. Þá þurfi að horfa á gildistíma og skilyrði aðgerðanna með hliðsjón af því að svo virðist sem faraldurinn verði langdregnari en gert var ráð fyrir í vor. „Í ljósi þess hvernig þessi faraldur er að þróast, þarf að hugsa þessar stuðningsaðgerðir við atvinnulífið upp á nýtt,“ sagði Ólafur Stephensen á Stöð 2.

Uppfært 18. ágúst: Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í fréttum Stöðvar 2 mánudagskvöldið 17. ágúst að vel kæmi til greina að gera aðlaganir eða frekari breytingar á stuðningsúrræðum, en að uppistöðu fyndist honum hafa tekist vel til. Viðtalið við Bjarna má sjá í spilaranum hér að neðan.

Ýtarlegri útgáfa viðtalsins við Ólaf á Vísi

Viðtal við Bjarna Benediktsson á Vísi

 

Nýjar fréttir

Innskráning