Yfir 70% fyrirtækja sem svöruðu könnun FA meðal félagsmanna hafa þurft að segja upp fólki eða grípa til annarrar lækkunar kostnaðar til að mæta hækkun launakostnaðar vegna kjarasamninganna sem gerðir voru síðastliðið vor.
Samkvæmt nýjustu tölum frá Vinnumálastofnun var skráð atvinnuleysi í janúar 4,8% og jókst um 0,5 prósentustig frá því í desember. Að jafnaði voru 8.808 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í janúar og fjölgaði um 789 frá desember. Alls voru 3.406 fleiri á atvinnuleysisskrá í janúar 2020 en í janúar árið áður.
Af fyrirtækjum sem svöruðu spurningunni sögðust 36% hafa þurft að segja upp fólki og svipað hlutfall þurfti að grípa til annarrar lækkunar kostnaðar. Fjórðungur fyrirtækjanna sagðist ekki hafa þurft að grípa til neinna aðgerða, 2% sögðust hafa hækkað verð og 2% farið í markaðssókn til að auka tekjur.
Könnun FA var gerð dagana 16.-23. janúar sl. Könnunin var send í tölvupósti til 157 fyrirtækja með beina félagsaðild og svöruðu 54 eða 34,4%. Undanfarin ár hefur svarhlutfallið legið á bilinu 31-64%. Ekki er hægt að rekja svörin til einstakra svarenda eða fyrirtækja.