Til skoðunar að banna þingmönnum að nota vildarpunkta í eigin þágu

04.03.2024

Birgir Ármannsson forseti Alþingis hefur svarað erindi Félags atvinnurekenda varðandi notkun þingmanna og annarra starfsmanna ríkisins á vildarpunktum í eigin þágu, sem fengnir eru vegna ferðalaga sem skattgreiðendur kosta. Í svari þingforseta kemur fram að verið sé að skoða hvort fyrirmæli fjármálaráðherra um ferðakostnað á vegum ríkisins gefi tilefni til að endurskoða reglur um þingfararkostnað. Í fyrirmælum fjármálaráðherra (reglum frá 2020) er skýrt kveðið á um að fríðindi og hvers kyns vildarkjör sem aflað sé við greiðslu á farmiða skuli eingöngu koma þeim ríkisaðila sem greiðir farmiðann til góða.

Forseti Alþingis svarar ekki efnislega þeim spurningum, sem beint var til hans í erindi FA. Varðandi það hvort nýting þingmanna í eigin þágu á vildarpunktum, sem fengnir eru vegna ferðalaga greidda af skattgreiðendum, sé í samræmi við lög og siðareglur þingsins, segir þingforseti að það sé ekki í hans verkahring að leggja mat á slíkt. Þingforseti svarar ekki spurningu um hvort hann telji að það sé skynsamlegt fyrirkomulag og siðlegt og líklegt til að stuðla að ábyrgri nýtingu fjármuna skattgreiðenda að alþingismenn og aðrir starfsmenn hins opinbera þiggi vildarpunkta til eigin persónulegra nota vegna ferðalaga sem skattgreiðendur kosta.

Lög um þingfararkostnað í endurskoðun
„Hvað viðkemur þeirri fyrirspurn hvort að það standist reglur fjármála- og efnahagsráðherra um greiðslu ferðakostnaðar frá 1. október 2020 að þingmenn noti vildarpunkta í eigin þágu skal tekið fram að um erlendan ferðakostnað alþingismanna gilda ákvæði laga nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, og eftir atvikum reglur forsætisnefndar um þingfararkostnað,“ segir í niðurlagi bréfsins. „Um þessar mundir stendur yfir vinna við endurskoðun laganna en þar er m.a. til skoðunar hvort að almenn fyrirmæli ráðherra um ferðakostnað á vegum ríkisins gefi tilefni til að endurskoða reglur um þingfararkostnað.“

Jákvætt að umræðan ýti undir endurskoðun
„Við hefðum kosið að fá skýrari svör frá forseta Alþingis,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Burtséð frá því að vildarpunktar, sem þingmenn geta notað í eigin þágu, búa til freistnivanda að beina viðskiptum til ákveðinna fyrirtækja, er það einfaldlega spilling og stenzt engin siðferðileg viðmið að alþingismenn geti notað í eigin þágu fríðindi, sem fengust vegna ferða sem skattgreiðendur kostuðu. Slíkt er svo augljóst að forseti Alþingis ætti að sjálfsögðu að taka af skarið og lýsa því yfir að slíkt sé ótækt og verði ekki liðið. Hins vegar er jákvætt að umræðan um þetta mál hafi orðið til þess að þingið íhugi að endurskoða reglurnar og taka fyrir þessa vildarpunktasöfnun þingmanna í eigin þágu. Það verkefni þolir ekki mikla bið.“

Bréf forseta Alþingis til FA

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning