Tilefnislausu sóttvarnirnar

22.01.2022

Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Innherja á Vísi 22. janúar 2022.

Þorsteinn Friðrik Halldórsson blaðamaður á Innherja skrifar grein hér á vefinn og víkur þar að málflutningi þrennra hagsmunasamtaka atvinnurekenda, m.a. að bréfaskrifum Félags atvinnurekenda til heilbrigðisráðherra fyrr í vikunni. Þar var spurt hvort stjórnvöld hefðu velt fyrir sér öðrum valkostum til að hemja kórónuveirufaraldurinn en þeim víðtæku hömlum á athafna- og atvinnufrelsi sem nú eru í gildi, til dæmis að beina aðgerðum að hópi óbólusettra fremur en hinum stóra meirihluta sem hefur þegið bólusetningu. „Það er engin ástæða til að taka undir málflutning hagsmunavarða sem hyggjast kaupa félagsmönnum sínum frelsi á kostnað annarra,“ skrifar Þorsteinn.

Þetta er vel stíluð grein og læsileg, en greinarhöfundur hrýtur í þann pytt sem verður á vegi margra að gefa sér ranga forsendu í upphafi og leggja út af henni. Afgangurinn af rökfærslunni verður þá dálítið á skjön. Forsendan sem Þorsteinn gefur sér er að takmarkanir á ferða- og athafnafrelsi í faraldrinum séu nú „með öllu tilefnislausar“.

Nú get ég ekki svarað fyrir aðra talsmenn atvinnulífsins en Félag atvinnurekenda hefur ekki treyst sér til að gefa sér þessa forsendu. Í bréfi félagsins til heilbrigðisráðherra var tekinn útgangspunktur í því mati sóttvarnalæknis að aðgerða væri þörf til að koma í veg fyrir neyðarástand í heilbrigðiskerfinu vegna fjölda sjúkrahúsinnlagna í kjölfar mikillar fjölgunar smita. Í einfölduðu máli gekk bréf FA út á að spyrja: Ef þörf er á aðgerðum til að hindra neyðarástand í heilbrigðiskerfinu, er þá ekki nær að þær beinist að fámennum hópi, sem veldur hlutfallslega margfalt stærri vanda í heilbrigðiskerfinu en aðrir, en að setja hömlur á atvinnu- og athafnafrelsi allra? Það er fullkomlega málefnaleg nálgun sem verðskuldar umræðu. FA er talsmaður athafna- og atvinnufrelsis og vill hafa meira af því en minna – þess vegna veltir félagið upp þessum sjónarmiðum.

Það er auðvelt að slá um sig með fullyrðingum eins og að verið sé að leggja til að kaupa fjölmennari hópi frelsi á kostnað fámennari hóps – en hvað þýðir slíkt í raun? Þegar ríkið bannar fólki sem hefur ekki farið með bílinn sinn í skoðun að keyra hann, skrifar Þorsteinn þá grein og hneykslast á því að verið sé að kaupa hinum stóra meirihluta, sem er með öryggisatriðin í lagi, frelsi á kostnað hinna?

Gefum okkur hins vegar að á næstu dögum og vikum komi í ljós að forsendan hans Þorsteins verði rétt og fjöldi sjúkrahússinnlagna verði ekki meiri en svo að heilbrigðiskerfið ráði vel við það. Þá erum við sammála; þá er engin ástæða til að taka upp bólusetningarpassa eða grípa til annarra aðgerða sem beinast að einum hópi fremur en öðrum. Þangað til slíkt liggur fyrir er ástæða til að skoða aðra kosti en hina víðtæku skerðingu á atvinnu- og athafnafrelsi sem nú er í gildi.

Grein Ólafs á Vísi

Nýjar fréttir

Innskráning