Grein Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptamogganum 11. september 2024.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra reyndi við Íslandsmetið í minnst sannfærandi frammistöðu stjórnmálamanns í sjónvarpsviðtali í Kastljósi RÚV í síðustu viku. Ráðherrann reyndi þar að verja breytinguna á búvörulögum, sem gerð var á Alþingi í vor fyrir hennar eigið tilstilli og annarra þingmanna í meirihluta atvinnuveganefndar, er afurðastöðvum í kjötiðnaði voru veittar víðtækar undanþágur frá samkeppnislögum.
Ráðherrann er í þeirri stórfurðulegu stöðu að stýra ráðuneyti, sem gerði alvarlegar athugasemdir við lagasetninguna og undirbúning hennar. Hún notaði mikið af viðtalinu í Kastljósi í að verjast gagnrýni eigin ráðuneytis, sem er nógu einkennilegt út af fyrir sig. Tvennt stóð síðan upp úr málflutningi matvælaráðherrans. Annars vegar viðurkenndi hún að ekkert væri í lögunum sem kæmi í veg fyrir að til yrði einn einokunarrisi á kjötmarkaðnum – en það væri nú allt í lagi vegna þess að tilgangurinn væri góður. Sömuleiðis kom fram að ráðherranum fyndist þetta allt í lagi vegna þess að „við höfum verið að sjá hvernig er farið hringinn í kringum lög í stórum sameiningum.“ – hvað svo sem það þýðir.
Samkeppnislög hafa skýran tilgang; að tryggja heilbrigða samkeppni á markaðnum, jafnan rétt fyrirtækja og hagsmuni neytenda. Það er verulegt áhyggjuefni að stjórnmálamönnum finnist í lagi að taka þau úr sambandi til að hjálpa fyrirtækjum í vanda (sem er alls ekki tilfellið með stóran hluta kjötafurðastöðvanna) og reyni að réttlæta fúskið við lagasetningu með því að einhverjum öðrum hafi tekizt að komast í kringum lögin.
Það má líka spyrja hvers vegna stór og öflug fyrirtæki verðskuldi að lúta ekki sömu lögum og önnur fyrirtæki. Er það af því að þau eru almenningi meira velviljuð en önnur? Af hverju dugðu ekki ákvæði samkeppnislaga sem heimila undanþágur frá bannákvæðum laganna, að því gefnu að t.d. neytendur njóti góðs af? Er kjarni málsins kannski sá að það sem á að gera í skjóli hinna nýju undanþága er alls ekki í þágu neytenda?
Í Kastljósþættinum var ekki rætt um það gífurlega ójafnræði og óréttlæti, sem lagabreyting Bjarkeyjar og félaga bjó til. Afurðastöðvarnar keppa á kjötmarkaðnum við fyrirtæki, sem flytja inn kjöt. Ef stjórnendur innflutningsfyrirtækja hafa með sér samráð, til dæmis um skiptingu markaða, verðlagningu eða tilboð í tollkvóta (sem þau keppa um við afurðastöðvar, sem eru líka stórir kjötinnflytjendur), geta þeir farið í sex ára fangelsi. Stjórnendur afurðastöðva geta nú hins vegar haft sín á milli allt það samráð sem þeim sýnist, refsilaust og án afskipta samkeppnisyfirvalda.
Mörg innflutningsfyrirtæki hafa stækkað á undanförnum árum með samrunum við önnur fyrirtæki. Þeir samrunar hafa eðlilega þurft að fara í gegnum nálarauga Samkeppniseftirlitsins. Er einhver hissa á að það misbjóði fullkomlega réttlætiskennd stjórnenda þessara fyrirtækja að keppinautum þeirra á kjötmarkaðnum sé nú heimilt að sameinast eins og þeim sýnist, án nokkurs atbeina samkeppnisyfirvalda?
Vinnubrögð Alþingis í málinu einkenndust af spillingu og fúski. Meirihluti atvinnuveganefndar tók sér fyrir hendur að skrifa nýtt frumvarp, sem gekk miklu lengra en upphaflegt frumvarp matvælaráðherra. Engin greining fór fram á áhrifum nýju ákvæðanna á samkeppni á markaðnum, stöðu bænda og neytenda eða samræmi við alþjóðasamninga. Sérfræðingar matvælaráðuneytisins voru ekki kallaðir til, en nefndin naut aðstoðar lögmanna Samtaka fyrirtækja í landbúnaði og ýmissa aðildarfyrirtækja þeirra við samningu lagaákvæðanna! Ekkert samráð var haft við aðra hagsmunaaðila, þótt málið væri í raun orðið allt annað mál en það sem fór í gegnum samráðsferli stjórnarráðsins og Alþingis. Fullyrðingar ráðherrans um að undanþágurnar séu í samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndunum eru kolrangar; þar takmarkast undanþágur frá samkeppnislögum einkum við félög í eigu og undir stjórn bænda, sem er engan veginn einhlítt þegar horft er á kjötafurðastöðvarnar.
Stjórnmálamenn hafa oft uppi falleg orð um faglega stjórnsýslu, vandaða löggjöf, samráð við almenning og hagsmunaaðila og allt hitt, sem á að einkenna vestrænt nútímaríki eins og okkar. Hvernig stendur á því að ef hagsmunaaðila í landbúnaði vantar eitthvað, breytist Ísland tímabundið í Túrkmenistan – og ráðamenn mæta bara í sjónvarpið og verja það, þótt það sé augljóslega með vondri samvizku?