Tímamótasamningur veitir Íslandi samkeppnisforskot í Indlandsviðskiptum

13.03.2024

Nýr fríverslunarsamningur EFTA og Indlands mun gefa Íslandi samkeppnisforskot í viðskiptum við Indland og er á meðal stærstu skrefa í fríverslunarsögu samtakanna. Þetta var á meðal þess sem kom fram í máli Martins Eyjólfssonar, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, á morgunverðarfundi FA og Íslensk-indverska viðskiptaráðsins, þar sem samningurinn var kynntur. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum í spilaranum. hér að neðan.

Martin benti á að samningurinn væri fyrsti fríverslunarsamningurinn sem Indland gerði við Evrópuríki. Hann væri sömuleiðis einstakur að því leyti að markmið um fjárfestingu EFTA-ríkjanna á Indlandi væru í samningnum sjálfum. „Út frá sjónarhóli EFTA og Íslands eru stórtíðindi að hafa gert fríverslunarsamning við fjölmennasta ríki veraldar og fimmta stærsta hagkerfið, sem er í mjög örum vexti,“ sagði hann.

Ráðuneytisstjórinn sagði að sömuleiðis skipti máli að Indland væri stærsta lýðræðisríki heims. „Lýðræði og frjáls viðskipti eru tvær hliðar á sama peningnum. Þetta snýst um valfrelsi og ég held að við áttum okkur betur á því en oft áður hversu mikilvægt er að frjáls viðskipti séu vafin inn í þá réttarvernd sem lýðræði veitir,“ sagði Martin.

Martin Eyjólfsson

Hann sagðist telja að samningurinn væri stærsta skrefið í fríverslunarsögu EFTA, á eftir EES-samningnum og fríverslunarsamningum EFTA við Efnahagsbandalag Evrópu í kringum 1970. „Samningurinn veitir gríðarlegt samkeppnisforskot fyrir íslensk fyrirtæki,“ sagði Martin og benti á að engin tíðindi væru af fríverslunarviðræðum Indlands við Bandaríkin, Evrópusambandið eða Bretland. „Við verðum með samkeppnisforskot á næstu misserum og það eigum við að nýta okkur,“ sagði ráðuneytisstjórinn.

Loks vakti hann athygli á að gerð samningsins fæli í sér mikilvæg skilaboð um opnun og aukið frelsi í viðskiptum á tímum, sem einkenndust fremur af verndarhyggju. „Við sjáum hvað hefur verið að gerast í samskiptum Bandaríkjanna og Kína. Það þarf ekki að tala um Úkraínustríðið og hvað hin ólögmæta innrás Rússa hefur gert fyrir heimsviðskiptin,“ sagði Martin Eyjólfsson.

Bættur aðgangur fyrir 96% af íslenskum útflutningsvörum
Þórður Jónsson, aðalsamningamaður Íslands, greindi frá helstu ákvæðum samningsins. Hann sagði að tollar á innfluttar vörur hefðu verið fremur háir á Indlandi, en samningurinn tryggði tollfríðindi fyrir allar helstu útflutningsvörur Íslands til Indlands. Tollar færu á núll ýmist strax eða eftir nokkur ár. Markaðsaðgangur fyrir sjávarafurðir væri stórbættur. Miklar hömlur væru á innflutningi landbúnaðarvara á Indlandi en bættur aðgangur fengist nú fyrir lambakjöt, vörur unnar úr sjávarþangi, vatn og aðra óáfenga drykki. Eingöngu Ísland hefði náð fram tollfríðindum fyrir lambakjöt, en Norðmönnum hefði ekki tekist að ná slíku fram.

Þórður Jónsson.

Þórður sagði að samningurinn tryggði tollfríðindi fyrir 96% af útflutningsvörum Íslands á heimsvísu og fyrir 98% af þeim vörum sem hefðu verið fluttar út til Indlands. Það væri hæsta hlutfallið á meðal EFTA-ríkjanna. Viðskiptin við Indland hefðu þó ekki verið mjög fjölbreytt, en vonandi myndi samningurinn stuðla að því að breyta því.

Þórður benti á að ekki væru lagðir tollar á iðnaðarvörur á Íslandi. Aðgangur varðandi landbúnaðarvörur væri á svipuðu róli og í öðrum fríverslunarsamningum Íslands. Tollfríðindi væru til dæmis veitt fyrir ákveðnar tegundir blóma, bökunarkartöflur og jógúrt svo dæmi væru nefnd.

Þórður sagði indversk stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á að á móti tollalækkunum kæmu EFTA-ríkin með fjárfestingu til landsins í krafti sinnar getu, þekkingar og fjármuna.  EFTA heitir þannig að styðja við efnahagsþróun, nýsköpun og græn umskipti á Indlandi, en ásama tíma mun Indland stuðla að hagstæðum skilyrðum til fjárfestinga, meðal annars með sérstöku þjónustuveri fyrir fjárfesta frá EFTA-ríkjunum. Samningnum er ætlað að draga úr skriffinnsku og einfalda tollskýrslugerð.

Ákvæði eru í samningnum sem auðvelda þjónustuviðskipti og auðvelda m.a. tímabundna dvöl sérfræðinga frá aðildarríkjunum. Samningurinn tryggir íslenskum fyrirtækjum aðgang og fyrirsjáanleika á hinum gríðarstóra indverska markaði. Þórður sagði að Indland hefði gefið skuldbindingar á sviðum sem íslensk fyrirtæki hefðu áhuga á, eins og varðandi orkutengda þjónustu. Indversk stjórnvöld hefðu stór áform um virkjun endurnýjanlegrar orku og þetta væri forgangsverkefni íslenskra stjórnvalda.

B. Shyam sendiherra

Getur stuðlað að fjölbreyttari útflutningi
B. Shyam, sendiherra Indlands, fjallaði um viðskipti Indlands og EFTA-ríkjanna í sögulegu ljósi. Hann benti á að útflutningur Íslands til Indlands hefði einkennst af fremur þröngu úrvali afurða íslenskra náttúruauðlinda, einkum sjávarafurða og málma. Fríverslunarsamningurinn ætti að geta stuðlað að því að útflutningur Íslands yrði fjölbreyttari. Þá gæti aukinn útflutningur til Indlands mögulega einnig stuðlað að meiri beinum innflutningi á indverskum vörum, enda þyrfti að nýta gámaplássið á leið aftur til Íslands.

Líflegar umræður voru á fundinum að erindum loknum og fundarmenn spurðu margs varðandi nýja fríverslunarsamninginn. Hér að neðan má sjá myndir frá fundinum.

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning