Tíu hagsmunamál fyrirtækjanna sem ættu heima í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar

27.09.2021

Í aðdraganda alþingiskosninganna á laugardag birti Félag atvinnurekenda á samfélagsmiðlum tillögur um tíu hagsmunamál fyrirtækja, sem ættu heima í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Hér er þessum málum safnað saman á einn stað:

1. Lækkun tryggingagjalds og annarra launatengdra gjalda
Tryggingagjald og önnur launatengd gjöld hafa hækkað verulega frá aldamótum. Há launatengd gjöld draga úr hvata fyrirtækja til að fjölga starfsfólki, ýta undir útvistun verkefna til ríkja þar sem launakostnaður er lægri og skapa freistingu til gerviverktöku. Það ætti að vera sameiginlegt hagsmunamál atvinnurekenda og stéttarfélaga að koma böndum á sífelldar hækkanir á launatengdum kostnaði.

2. Breytt kerfi fasteignaskatta, þar sem skattheimtan er gegnsæ og fylgir ekki sveiflum í fasteignamati
Hækkanir á fasteignamati atvinnuhúsnæðis hafa valdið gífurlegri hækkun á skattbyrði fyrirtækjanna, oft alveg óháð því hvernig gengur í rekstrinum. Dæmi eru um að fasteignamat eigna, sem hafa staðið auðar í kórónuveirufaraldrinum, hækki verulega! Skattheimtan er ógegnsæ og ómögulegt fyrir fyrirtækin að átta sig á því með góðum fyrirvara hvað þau muni greiða í skatt af húsnæði sínu. Finna þarf nýtt og sanngjarnara kerfi, þar sem skattar af atvinnuhúsnæði fylgja ekki sveiflum í fasteignamati.

3. Lækkun tolla á t.d. blóm og aðföng til innlendrar matvælaframleiðslu, s.s. mjólkurduft og undanrennuduft, til að efla samkeppni og lækka verð
Háir tollar eru samkeppnishindrun. Gríðarlegir tollar eru lagðir á innflutt blóm þótt innlend framleiðsla anni ekki eftirspurn. Margar blómategundir sem ekki eru ræktaðar á Íslandi bera háa tolla. Á hvert afskorið blóm leggst 95 króna tollur! Með sama hætti eru lagðir háir tollar á innflutt mjólkur- og undanrennuduft sem nýtt er í matvælaiðnaði. Í skjóli tollverndarinnar getur eini seljandi duftsins á Íslandi, Mjólkursamsalan, krafið innlend iðnfyrirtæki um verð sem er miklu hærra en það sem erlendir viðskiptavinir MS greiða – sem oft eru keppinautar innlendu fyrirtækjanna.

4. Beitt verði samkeppnismati á núverandi og nýtt regluverk fyrir fyrirtæki og atvinnulíf
Samkeppnismat OECD á regluverki byggingariðnaðar og ferðaþjónustu á Íslandi var frábær byrjun. Út úr þeirri vinnu komu tugir tillagna um afnám samkeppnishindrana, sem munu auka verðmætasköpun um milljarða ef þær komast í framkvæmd. FA hefur talað fyrir því að sambærilegu mati verði beitt bæði á tillögur að nýju regluverki fyrir atvinnulífið og á núgildandi reglur. Byrjað verði á landbúnaði og sjávarútvegi.

5. Aðgerðir til að hindra stöðugar hækkanir á húsnæðisverði, sem valda verðbólgu og þrýstingi á launakostnað
Gífurlegar hækkanir á húsnæðisverði og þar með húsnæðiskostnaði launafólks eru ein helsta ástæða verðbólgu og þrýstings á launahækkanir. Að mati FA þarf að grípa til samstilltra aðgerða til að draga úr hækkunum á húsnæðismarkaði.

6. Fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkisins eða fjármögnuð af því hætti beinni samkeppni við einkafyrirtæki
Íslandspóstur grefur undan einkareknum flutningafyrirtækjum með undirboðum á pakkasendingum. Endurmenntunardeildir Háskólanna bjóða niðurgreitt nám í beinni samkeppni við einkarekin fræðslufyrirtæki. Dæmin eru alltof mörg um ríkisrekstur þar sem ekki er þörf á honum og að ríkisrekin eða ríkisstyrkt starfsemi grafi með beinum hætti undan rekstri einkafyrirtækja.

7. Endurgjaldslaus úthlutun á tollkvótum fyrir búvörur
Uppboð á tollkvótum þýða í raun að ríkið tekur vörur, sem búið var að semja við önnur ríki um að yrðu tollfrjálsar, og leggur á þær nýjan skatt í formi útboðsgjalds. Þannig fá verslunin og neytendur ekki að njóta tollfrelsisins til fulls. Útboðsgjaldið hefur ítrekað verið dæmt ólögmætt í Hæstarétti en alltaf finna stjórnvöld nýja útfærslu á skattinum og innheimta hann þar til næsti dómur fellur. Stöndum við alþjóðasamninga og úthlutum tollkvótum án endurgjalds.

8. Skýrar leikreglur á áfengismarkaði sem tryggja samkeppni og jafnræði
Furðuleg staða er uppi á áfengismarkaðnum þar sem ráðamenn segja netverslun með áfengi löglega en Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins kærir netverslanir og dregur þær fyrir dómstóla. Áfengisauglýsingar eru í orði kveðnu ólöglegar en eru engu að síður öllum sýnilegar í alþjóðlegum fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. FA kallar eftir skýrum reglum sem tryggja samkeppni og jafnræði á áfengismarkaðnum.

9. Nýtt vinnumarkaðsmódel þar sem opinberir aðilar hafa ekki forystu um launahækkanir heldur taka launabreytingar mið af getu útflutningsgreina til að borga laun
Enn og aftur hafa opinberir aðilar tekið forystuna í hækkun launakostnaðar, m.a. með mun dýrari útfærslum á styttingu vinnuvikunnar en samið var um á almennum vinnumarkaði. Ekkert hagkerfi getur staðið undir því að hið opinbera hafi forystu um hækkun launakostnaðar. Finna verður nýja sátt um að launaþróun taki mið af getu fyrirtækjanna til að greiða laun.

10. Eftirlitsgjöld á fyrirtæki verði einfölduð og tryggt að þau séu í samræmi við kostnað við eftirlitið
Alltof mörg dæmi eru um illa rökstudd eftirlitsgjöld sem lögð eru á fyrirtæki. Kostnaðargrunnur þarf að liggja fyrir, gjaldskrár þurfa að vera opinberar og hið opinbera á stöðugt að leita leiða til þess að kostnaður við opinbert eftirlit sé sem lægstur.

 

Nýjar fréttir

Innskráning