Tíu hagsmunamál fyrirtækjanna sem eiga erindi í stjórnarsáttmálann

31.10.2016
Birgir Bjarnason
Birgir Bjarnason, formaður FA

Birgir Bjarnason, formaður Félags atvinnurekenda, hefur sent öllum flokkum sem náðu kjöri á Alþingi í kosningunum um helgina bréf þar sem reifuð er ályktun stjórnar FA frá því í morgun. Þar eru talin upp tíu hagsmunamál minni og meðalstórra fyrirtækja sem að mati félagsins ætti að halda til haga við gerð stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.

„Nú að afstöðnum kosningum hefjast þreifingar um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Félagi atvinnurekenda þykir mikilvægt að í nýjum stjórnarsáttmála verði tekið á ýmsum atriðum sem varða hagsmuni fyrirtækjanna í landinu, ekki síst þeirra minni og meðalstóru, sem oft eru í erfiðri samkeppnisstöðu gagnvart stærri aðilum,“ segir Birgir í bréfinu.

Í ályktun FA eru eftirfarandi atriði talin upp:

  • Aðhald og ábyrgð í ríkisfjármálum til að styðja við peningamálastefnu Seðlabankans. Stöðugleiki, þar sem verðbólgumarkmið nást og vextir halda áfram að lækka, er stærsta hagsmunamál fyrirtækjanna.
  • Átak verði gert í því að einfalda regluverk atvinnulífsins og hrinda í framkvæmd áformum um að tilkynningaskylda fyrirtækja komi í stað flókinna og dýrra leyfisveitinga. Sett verði regla um að við innleiðingu Evrópureglna í íslenska löggjöf verði engum íþyngjandi reglum fyrir atvinnulífið bætt við nema með sérstökum rökstuðningi.
  • Búvörusamningar verði endurskoðaðir í breiðri sátt bænda, neytenda og atvinnulífs. Stuðningskerfi landbúnaðarins verði breytt og tollar lækkaðir í samræmi við tillögur Samráðsvettvangs um aukna hagsæld.
  • Leitað verði leiða til að tryggja aðgengi fiskvinnslu án kvóta eða eigin útgerðar að hráefni til vinnslu. Stefna ætti að afnámi tvöfaldrar verðmyndunar í sjávarútvegi, meðal annars með því að lögfesta milliverðlagningarreglur um innri viðskipti lóðrétt samþættra útgerðar- og vinnslufyrirtækja.
  • Haldið verði áfram að lækka tryggingagjald fyrirtækja í áföngum.
  • Eftirlitsgjöld sem ríkið leggur á fyrirtæki verði tekin til heildarendurskoðunar. Gjaldtakan af hverju fyrirtæki fyrir sig endurspegli raunkostnað við eftirlitið sem að því beinist.
  • Gert verði átak í því að ríkisstofnanir fari að lögum um opinber innkaup og bjóði út kaup á vörum og þjónustu.
  • Stjórnvöld fari að tilmælum Samkeppniseftirlitsins um að afnema samkeppnishömlur, til dæmis í landbúnaði, sjávarútvegi og millilandaflugi. Samkeppniseftirlitið verði eflt. Tekið verði upp samkeppnismat að tillögu OECD.
  • Hömlur verði settar á samkeppni ríkisfyrirtækja á borð við Isavia og Íslandspóst við einkarekin fyrirtæki.
  • Átak verði gert í gerð fríverslunarsamninga við önnur ríki, ýmist tvíhliða eða á vettvangi EFTA.

„Það er von mín að þinn flokkur taki þessi hagsmunamál fyrirtækjanna í landinu til skoðunar og haldi þeim til haga í mögulegum viðræðum um stjórnarsamstarf,“ segir í niðurlagi bréfs Birgis.

Bréf formanns FA til flokksformanna

 

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning