Tollalækkanir efla samkeppni

04.08.2017
Örtröð í stórverslun Costco.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, bendir á það í Morgunblaðinu í dag að lækkun tolla og vörugjalda undanfarin ár – sem hefur verið eitt af baráttumálum FA – hafi eflt samkeppni á innanlandsmarkaði. Afnám tolla hafi verið ein forsenda þess að stórar verslanakeðjur á borð við Costco og H&M hafi ákveðið að opna verslanir á Íslandi.

Morgunblaðið leitaði viðbragða FA vegna ummæla Sturlu G. Eðvarðssonar, framkvæmdastjóra Smáralindar, í blaðinu í fyrradag, en þar sagði Sturla að álagning heildsala hefði verið gríðarleg í gegnum tíðina. „Verslunin í landinu hefur þurft að taka á sig skammir neytenda vegna verðlagningar. Það mætti benda á þátt heildsala í þessu. Það eru ekki neinir kotbændur sem stjórna þessum heildsölum. Það var allt í einu mögulegt að lækka verð við komu Costco til landsins. Menn náðu skyndilega betri samningum við erlenda birgja,“ sagði Sturla.

Ólafur segir það ekki eiga að koma á óvart að aukin samkeppni á markaðnum leiði til þess að heildsölur nái betri samningum við erlenda birgja. „Innkoma Costco á þennan markað á klárlega þátt í að menn hafa náð betri samningum við birgja. Sturla Gunnar lætur eins og hann sé hissa á því. Menn þurfa ekki að vera það. Heildsalar eru stöðugt að reyna að ná niður verði hjá birgjum. Það er eðli viðskipta. Svo er allur gangur á hvernig það gengur. Þegar svona stór verslunarkeðja kemur inn á markaðinn með það augljósa markmið að bjóða lægra verð styrkir það stöðu innflytjenda á dagvöru í samningaviðræðum við birgja,“ segir Ólafur í Morgunblaðinu.

Smásalar eru líka innflytjendur
Framkvæmdastjóri FA segir mörkin milli heildsölu og smásölu hafa orðið óskýrari í seinni tíð. „Stóru verslanakeðjurnar eru farnar að flytja vörur beint inn. Því hefur fylgt harðnandi samkeppni. Stærstu viðskiptavinir heildsalanna eru oft um leið þeirra stærstu keppinautar. Í þessu samkeppnisumhverfi komast menn ekki upp með ofurálagningu. Hitt er svo annað mál að samkeppni er alltaf hvatning til að gera betur,“ segir Ólafur.

Hann segir nokkra þætti skýra að vöruverð hafi lækkað á Íslandi. Til dæmis hafi tollar verið felldir niður, krónan hafi styrkst og netverslun verði sífellt greiðari og auðveldari. Hann segir aðspurður að áhrifin af tollabreytingunum hafi að sumu leyti verið vanmetin. „Menn hafa fyrst og fremst horft á hvernig breytingarnar hafa skilað sér beint í verði tiltekinna vara. Þær stuðla líka að því að breyta umhverfinu í verslun. Þeim fjölgar sem keppa hér á markaðnum, enda eru tollabreytingarnar ein forsenda þess að fyrirtæki eins og Costco og H&M vilja koma hingað,“ segir Ólafur.

Hugsanlega frekari samrunar
Í Morgunblaðinu er jafnframt rætt við Magnús Óla Ólafsson, forstjóra Innness og formann FA, og Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra ÍSAM. Þau eru sammála um að innkoma Costco á markaðinn breyti miklu fyrir íslenska heildsala.

Magnús Óli segir að ekki sé útilokað að frekari samrunar verði á heildsölumarkaði. Það hafi löngum verið erfitt verkefni að fá erlenda birgja til að sýna svona litlum markaði áhuga.

Bergþóra segir Costco hafa breytt vígstöðu heildsala gagnvart erlendum birgjum. „Við erum að keppa við annan stærsta smásöluaðila í heimi og stöndum því frammi fyrir gjörbreyttri markaðsstöðu. Við erum að keppa við innkaupamátt sem er allt annar en hefur nokkurn tímann verið hér. Við brýnum það fyrir okkar birgjum að þeir þurfi að velta því fyrir sér hvernig þeir ætla að takast á við það,“ segir Bergþóra.

Nýjar fréttir

Innskráning