Tollar á mat lækki um helming, falli alveg niður á alifugla- og svínakjöti

21.10.2015
Tollamartixa 20.10
Myndin sýnir hvernig ekki er hægt að setja alla matartolla undir sama hatt. Sumir vernda enga innlenda starfsemi, aðrir framleiðslu sem ekki getur talist til hefðbundins landbúnaðar.

Félag atvinnurekenda leggur til að tollar á innfluttum búvörum verði lækkaðir um helming. Tollvernd fyrir svína- og alifuglakjöt verði afnumin að fullu, svo og tollar á ýmsum öðrum vörum sem ekki keppa við innlenda búvöruframleiðslu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu FA, Matartollar: Verndarstefna eða samkeppni og valfrelsi neytenda? Stór hluti verndartolla leggst á vörur sem ýmist eru ekki framleiddar hér á landi, eru ekki framleiddar í fullnægjandi magni eða teljast ekki til hefðbundinnar búvöruframleiðslu. Verndin missir því marks og skaðar eingöngu neytendur og samkeppni.

„Skýrsla FA er hugsuð sem innlegg í umræðuna um afnám tolla og vörugjalda, sem núverandi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir. FA fagnar þeim skrefum sem þegar hafa verið stigin og áformuð eru á næstunni en hvetur til þess að maturinn sé ekki undanskilinn í umræðunni um tollalækkanir,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

Tillögur FA miða að því að virkja samkeppni á matvörumarkaði, draga úr sóun og auka fjölbreytni. Þær eru eftirfarandi:

  • Almennir tollar á landbúnaðarvörum verði lækkaðir um 50%. Hefðbundinn landbúnaður mun áfram njóta nokkurrar verndar en forsendur eru skapaðar til að innflutningur veiti innlendri framleiðslu raunverulega samkeppni og hvetji til verðlækkana, hagræðingar og vöruþróunar.
  • Tollar á svína- og alifuglakjöti verði afnumdir að fullu. Gera má ráð fyrir miklum verðlækkunum, neytendum til hagsbóta. Viðkomandi greinar þurfa annaðhvort að bregðast við með því að hagræða og auka framleiðni eða keppa á grundvelli gæða.
  • Tollar á öðrum vörum, sem ekki keppa við innlenda framleiðslu, verði afnumdir að fullu. Undir þetta geta fallið vörur eins og geita-, ær- og buffalaostar, parmesanostur og aðrir harðir ostar, anda-, dádýra- og kengúrukjöt, franskar kartöflur, kartöflusnakk, sætar kartöflur, bökur, pitsur og pasta.

Fjórðungslækkun á alifuglakjöti og unnum kartöfluvörum
Varfærið mat Rannsóknaseturs verslunarinnar, sem reiknaði nokkur verðdæmi byggð á þessum tillögum, er að kæmust þær í framkvæmd myndi svínakjöt lækka í verði um tæp 16%, fuglakjöt um 25%, nautakjöt um tæp 9% og unnar kartöfluvörur (franskar, snakk) um tæp 28%.

Skýrslan var kynnt á fundi FA í hádeginu í dag. Ólafur Stephensen fjallaði þar meðal annars um nýlegt samkomulag Íslands og ESB um gagnkvæmar tollalækkanir og sagði að þótt það væri stórt skref í átt til viðskiptafrelsis næði það ekki nógu langt. Í fyrsta lagi næði það aðeins til 28 ríkja af 161 aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), í öðru lagi væru tollfrjálsir innflutningskvótar samkvæmt samkomulaginu aðeins lágt hlutfall innanlandsneyslu og í þriðja lagi væru tollar á mörgum vörum áfram háir. Þannig er gert ráð fyrir að tollur á frönskum kartöflum lækki úr 76% í 46% og engin lækkun verður á tollum á smjöri og jógúrt, svo dæmi séu tekin.

Skýrsla FA um matartolla

Glærur Ólafs

Nýjar fréttir

8. júlí 2024

Innskráning