Tollar hækkuðu á miðvikudaginn, 1. júlí, á nokkrum tegundum innflutts grænmetis. Það mun hækka verð og leiða til þess að neytendur þurfa að greiða mun meira fyrir vörurnar á næstu vikum en á sama tíma í fyrra. Ekkert framboð er af viðkomandi grænmetistegundum frá innlendum framleiðendum og eru því lagðir á verndartollar án þess að nokkuð sé að vernda.
Á gulrætur leggst þannig 30% verðtollur, auk 136 króna magntolls á hvert kíló. Spergilkál ber sömuleiðis 30% verðtoll og 282 króna magntoll á kíló. Kínakál tekur á sig 30% verðtoll og 206 króna magntoll á kíló.
Nánast ekkert framboð er af gulrótum frá innlendum framleiðendum. Samkvæmt upplýsingum sem FA hefur aflað sér er von á nokkur hundruð kílóum af gulrótum á næstu vikum, sem engan veginn anna eftirspurn. Ekkert framboð er af kínakáli og spergilkáli og óljóst hvenær nokkuð af þeim vörum verður fáanlegt frá innlendum framleiðendum í einhverju magni.
Í boði atvinnuveganefndar
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flutti í fyrra frumvarp sem fól í sér ýmar breytingar á tollaumhverfi innflutnings búvara. Felld voru niður ákvæði sem heimiluðu ráðherra að gefa út svokallaðan skortkvóta ef innlenda framleiðslu vantar á markaðinn en þess í stað skilgreind fastákveðin tímabil, sem flytja má inn viðkomandi vöru á lægri eða engum tolli. FA gagnrýndi þau ákvæði frumvarpsins og lagði til verulega rýmkun á tímabilunum. Í meðförum atvinnuveganefndar Alþingis þrengdust þau hins vegar með áðurgreindum afleiðingum; tollar leggjast nú á innfluttu vöruna þótt engin innlend vara sé til og engin leið er að breyta því. Þetta mun hækka verð og gera má ráð fyrir að þetta valdi því að neytendur þurfi að greiða umtalsvert hærra verð fyrir umræddar grænmetistegundir en þeir gerðu á sama tímabili í fyrrasumar.
Fáránlegt ástand
„Dæmunum fer fjölgandi um að löggjöfin sem tók gildi um áramótin er meingölluð,“ segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Það er full ástæða til þess að ráðherra leggi nýtt frumvarp fyrir Alþingi, þar sem annaðhvort kemur aftur inn heimild til að gefa út skortkvóta eða tímabil tollfrjáls innflutnings verða rýmkuð. Þetta ástand; að lagðir séu á verndartollar til að vernda innlenda framleiðslu sem er ekki til, er algjörlega fáránlegt.“