Tollar á ýmsum matvörum frá ríkjum Evrópusambandsins lækka 1. maí næstkomandi, en þá tekur loks gildi tvíhliða tollasamningur Íslands og Evrópusambandsins, sem gerður var haustið 2015. Afnumdir eru tollar af t.d. súkkulaðivörum, ýmsu kexi og brauði, pitsum og bökum, fylltu pasta, bollasúpum og þannig mætti áfram telja. Oftast er um magntolla að ræða, þ.e. fasta krónutölu sem leggst á hvert kíló viðkomandi vöru. Þeir tollar geta numið allt frá 5 kr./kg og upp í 110 kr./kg.
Þá lækka einhverjir verðtollar, sem leggjast sem prósenta ofan á verð viðkomandi vöru. Mesta breytingin er þar á tolli á franskar kartöflur, sem fer úr 76% í 46%. Tollur á ís og sorbet lækkar úr 30% í 18%, en þær vörur hafa einnig borið magntoll, sem lækkar úr 110 kr./kg í 66 kr./kg.
Í töflunni hér að neðan má sjá nokkur dæmi um tollabreytingar.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að þess megi vænta að tollabreytingarnar lækki verð á viðkomandi vörum, þótt verðlækkunin verði í ýmsum tilvikum ekki mikil. Lækkun um 30 prósentustig á tolli á franskar kartöflur ætti þó til dæmis að skila sér í talsverðri verðlækkun, eða upp á allt að fimmtungi útsöluverðs. Ólafur segir nauðsynlegt að hafa í huga að það taki einhvern tíma fyrir verðlækkanir að koma fram; birgjar eigi enn birgðir af vörum sem búið sé að tolla og einnig verði að horfa til áhrifa gengisbreytinga og fleiri þátta. Þá falli tollar aðeins niður af vörum sem fluttar eru inn frá ESB-ríkjum. „Þetta er jákvætt skref í átt til aukinnar fríverslunar og við hvetjum okkar félagsmenn til að skila þessum lækkunum áfram til neytenda,“ segir Ólafur.
Hlutfall tollkvóta af neyslu fer lækkandi
Tollar á kjöti og mjólkurvörum lækka ekki við gildistöku samningsins. Hins vegar stækka tollfrjálsir innflutningskvótar fyrir kjötvörur og osta smám saman á næstu fjórum árum og má gera ráð fyrir að það skapi aukna samkeppni við innlenda framleiðslu, sem leiða muni til verðlækkana.
Í töflunni hér að neðan má sjá hvernig kvótarnir stækka á fjórum árum. Eins og Félag atvinnurekenda spáði þegar samningurinn var gerður, hefur hlutfall tollkvótanna af innanlandsneyslu búvara lækkað verulega á þeim misserum sem liðin eru frá því að samningurinn var gerður, enda eykst neysla viðkomandi vara hratt, meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna.
„Það er fráleitt að tala um þessa tollkvóta sem ógn við íslenskan landbúnað, eins og gert var í ályktun Búnaðarþings, þar sem hvatt er til þess að tollasamningnum verði sagt upp,“ segir Ólafur Stephensen. „Þetta er afskaplega hófleg samkeppni, sem hvetur íslenskan landbúnað engu að síður til að gera betur, bæði hvað varðar verð og vöruúrval.“
Leiðréttir Alþingi ostaklúðrið?
Tollfrjálsu innflutningskvótarnir, sem atvinnuvegaráðuneytið auglýsti í síðasta mánuði, eru þó minni en til stóð. Vegna klúðurs við lagasetningu þegar Alþingi samþykkti búvörusamninga árið 2016, rataði vilji þingsins, um að allur nýi tollkvótinn fyrir svokallaða sérosta tæki gildi strax við gildistöku samningsins, ekki inn í lagatextann. Ráðuneytið lét hjá líða að vekja athygli þingsins á þessu og auglýsti aðeins hluta þess kvóta sem með réttu hefði átt að auglýsa, eða tæp 37 tonn af 140. FA hefur ritað atvinnuveganefnd bréf og farið fram á að nefndin flytji fyrir þinglok frumvarp til að lagfæra þetta, enda er um mikla hagsmuni jafnt innflytjenda sem neytenda að ræða.